Doctor philosophiae

Við Skúli litum við á doktorsvörn Sverris áðan. Nú vitum við hvernig slíkt battarí gengur fyrir sig. Slík vitneskja getur komið metnaðarfullum námsmönnum að góðu haldi í framtíðinni. Alveg væri ég annars til í að upplifa doktorsvörn þar sem andmælt er ex-auditorio. Það væri töff. Annars voru minni átök en ég bjóst við. Ég sá fyrir mér miklar fræðilegar deilur sem jafnvel ristu djúpt. Enda sagnfræðingar lítið þekktir fyrir annað.

Nokkra sá ég á vörninni sem ég kannaðist við. Auk Ármanns og Katrínar, að sjálfsögðu, sá ég Sigurð „sögu“ Ragnarsson fyrrum MS-rektor, Clarence Glad, Svan Gettu-betur kempu, sem ég raunar þekki ekki neitt, Véstein og Óla Gneista vantrúarmann. Einnig sá ég mann ískyggilega líkan Jóhanni Grétari Kröyer Gizurarsyni, en ég þorði ekki að spyrja.

Að þessu loknu kíktum við Skúli á Prikið, hvar við ræddum tilgang lífsins og heimsins málefni.

Bloggað um veginn

Ég er örendur á líkama og sál. Hvaðan kemur þessi þreyta?

Mig langar til að skrifa, en ég hef ekkert að segja, svo ég dæli bara í ykkur Lao Tse-legu spakmæli:

Allir óska sér þess einhvern tíma að líf þeirra taki gjörbreytingum og að allt verði eins og best væri á kosið. Þeir sömu missa af hamingjunni, því hún felst ekki í því að hafa, heldur að öðlast. Sá sem hefur allt hefur ekkert til að eignast. Fullkomnun útilokar framfarir. Menn eiga að setja sér há takmörk svo þeir hafi einhver, en standi ekki uppi hafandi sigrast á þeim öllum. Þar er hryggðin fólgin.
Af því má sjá að í draumnum felst raunveruleg sæla, en í veruleikanum óveruleg martröð.

Segið svo að þessi síða standi ekki undir nafni.