Úr Andrésblaði

Þegar ég var lítill las ég heil ógrynni af Andrésblöðum. Í einu þeirra var saga þar sem Jóakim gefur Andrési og Hábeini sinn hvorn hundraðþúsundkallinn til að fjárfesta, svo þeir geti nú loksins orðið eitthvað, auðnuleysingjarnir. Þó það komi málinu ekkert við endar sagan á að Andrés klúðrar sínum málum, en Hábeinn verður svo ríkur að Jóakim fer að óttast samkeppnina sem af hlýst.

Í upphafi sögunnar, áður en Jóakim segir þeim hvers vegna þeir voru dregnir á fund við sig, hrópar hann að þeim ókvæðisorðum og húðskammar þá. Hábein ásakar hann um að hafa aldrei stungið hendi í kalt vatn, en skammar Andrés fyrir að hafa aldrei átt tvo þúsundkalla á sama tíma. Andrés svarar því að peningar séu bara pappír uns maður eyði þeim. Það fannst mér mikill vísdómur þá.

Það að Andrés hefði aldrei átt tvo þúsundkalla á sama tíma fannst mér segja mikið um sjálfan mig, en þá, átta ára gamall, hafði ég heldur aldrei verið svo ríkur. Þó fannst mér bót í máli að ég hafði í það minnsta stungið hendi í kalt vatn, sem var meira en Hábeinn gat sagt. Þannig fannst mér það jafnast út og hafði því ekki frekari áhyggjur af að enda sem auðnuleysingi.

Í dag á ég hins vegar ekki svo mikið sem einn þúsundkall. Þó eru hendur mínar kaldar af verunni í vatninu síðastliðinn tíu og hálfan tíma. Ég finn ekki jöfnuðinn lengur.