Fuglabjargið

Fór veikur heim úr vinnunni í miðri afgreiðslu. Það var mátulegt á mig. Ég veit ekki hvers vegna það var mátulegt á mig, en það hlýtur að hafa verið það. Allt sem mig hendir er mátulegt á mig, a.m.k. ef sumir eru hafðir til álitsgjafar.

Þannig er skap mitt þessa stundina að ég vil heyra sem minnst af íslenskri umræðu og unnt er. Þessar smáborgaralegu og illþolanlegu Baugs-, Heimdallar- og stjórnmálaumræður eru eins fjarri lund minni og hugsast gæti. Stundum finnst mér eins og ég búi í apakletti. Stundum eins og á hálfvitahæli.

Þessu lítillega tengt hefur einhver sem kallar sig Slikk ákveðið að ég hafi aldrei verið skráður í Sjálfstæðisflokkinn, útfrá gamalli bloggfærslu minni. Það gerir hann á þeim forsendum að hann hafi sjálfur oft fengið sms frá Heimdalli. Þetta er honum velkomið að gera. Það breytir því samt ekki að ég var skráður í Sjálfstæðisflokkinn, að mér óforspurðum, í kosningum Heimdallar 2003.

Ekki get ég neitað því að mér hafi orðið nokkuð bilt við því að flokkaaðild mín sé orðin að umræðuefni mér ókunnugra manna á netinu. Þessi síða er EKKI miðill til að vitna til um nein málefni, þá sér í lagi þau er varða pólitíska umræðu. Það þykir mér ágæt regla að biðja um leyfi áður en vitnað er í menn á opinberum vettvangi. Hver veit þá nema leyfið fáist. En heimildarlausar vísanir í hversdagslíf mitt eru vinsamlegast afþakkaðar, svo það sé á hreinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *