Ofvitinn

Mér finnst leiðinlegt í öllum umræðum um Ofvitann eftir meistara Þórberg hvernig menn þrástagast á því hve fyndin hún sé. Auðvitað er hún drepfyndin, en hún er svo miklu meira en það. Það vill oft gleymast að þótt bókin sé færð í húmorsbúning leið Þórbergi alls ekki vel á þessum tíma. Hann var sárfátækur, með blóðuga góma af vanhirðu, líkamlega illa á sig kominn af vannæringu, ómenntaður – þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir – ástfanginn án vonar og undir það síðasta höfðu vinir hans yfirgefið hann. Þórbergur þjáðist af þunglyndi á háu stigi, reyndi að fyrirfara sér og, eftir að hafa hætt við það, lagðist hann í rekkju og ætlaði aldrei aftur á fætur. Þar lá hann heila viku án næringar og samskipta áður en Erlendur í Unuhúsi heimsótti hann og bjargaði lífi hans.
Ofvitinn er ekki fyndinn að þessu leyti. Í það minnsta hló ég ekki. Þetta er sönn baráttusaga ungs manns á öndverðri tuttugustu öldinni, sem þrátt fyrir háleitar hugsjónir þurfti að dragnast áfram gegnum drullupoll lífsins. Þetta er átakanleg frásögn með farsælan endi. Og mér finnst að það eigi að virða. Ofvitann á ekki að leggja frá sér fulllesinn með bros á vör. Honum á að ljúka með hugleiðslu um hrakfarir mannanna og misskiptum gæðum heimsins. Menn skulu vita, að eins hefði getað farið fyrir þeim, hefðu þeir ekki fæðst með silfurskeið í munni. Menn skulu umfram allt vita, að fátækt er ekkert grín, og að betur væri að gert ef reynt væri að sporna við því, að menn læpu dauðann úr skelinni hér á götum úti.
Eða það er nú einu sinni mín leiðinlega, fanatíska skoðun. Kannski ekki við öðru að búast af svo leiðinlegum fanatíker sem ég er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *