Kviðslit og Sjálfstætt fólk

Það fer versnandi, kviðslitið, ef það er það sem það er. Það veit ekki á gott, áður gerði það aðeins vart við sig í vinnunni, þegar ég hafði staðið lengi. Nú finn ég fyrir því við lesturinn.

Ef ég væri einn þeirra sem gerði slíkan óþverra að efni í kveðskap myndi ég áreiðanlega yrkja þessa ferskeytlu:

Verkinn versta vil þú vit
verri’ en hitt altsaman.
Er kviðar hefirðu’ í klofi slit,
kárnar þá þitt gaman.

En ég er ekki einn þeirra og því yrki ég ekki slíkar óþverraferskeytlur.

Gaman væri annars að vita hvursu langt menn eru komnir í Sjálfstæðu fólki. Sjálfur er ég aðeins búinn með rúmar áttatíu og á því tæpar tvöhundruð eftir fyrir prófið. Ég hef nefnilega komist að því að ég get ekki lesið Laxness á einhverju hundavaði. Ég einfaldlega get það ekki. Ég megna varla að lesa nema kafla í senn áður en ég þarf að leggja hann frá mér og lesa eitthvað annað; mér þykir hann skemmtilegur en ég nenni ekki að lesa hann. Sem er leiðinlegt því hann er svo skemmtilegur. Skrýtið …

Jahérna

1. gr.
Félagið heitir Mannætufélag Íslands, skammstafað MaÍs. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Reikningsár þess er almanaksárið.

3. gr.
Hlutverk félagsins er að vinna að mannáti og lögleiðingu þess á Íslandi, hagsmunum mannæta, kynningu og skilningi á mannáti og baráttu gegn fordómum í garð mannæta, og skemmtun og vinskap félaga.

Jahérna, Vésteinn. Þetta er voða fyndið og allt það, en óttist þið ekki að fólk taki þessu alvarlega (eða þið vonist kannski eftir því)? En þetta skýrist vonandi allt saman þegar fyrsta tölublað málgagnsins verður gefið út?
Í það minnsta væri fróðlegt ef þetta leiddi til slíkrar stigmögnunar (e. escalation) á sviði réttindabaráttu íslenskra mannæta að róttækari félagasamtök mannæta yrðu stofnuð. Þá fyrst fengjum við að sjá svakaleg mótmæli, svo ég láti ekki fastar að orði kveða. Menn munu nær um hvað ég á við.