Kviðslit og Sjálfstætt fólk

Það fer versnandi, kviðslitið, ef það er það sem það er. Það veit ekki á gott, áður gerði það aðeins vart við sig í vinnunni, þegar ég hafði staðið lengi. Nú finn ég fyrir því við lesturinn.

Ef ég væri einn þeirra sem gerði slíkan óþverra að efni í kveðskap myndi ég áreiðanlega yrkja þessa ferskeytlu:

Verkinn versta vil þú vit
verri’ en hitt altsaman.
Er kviðar hefirðu’ í klofi slit,
kárnar þá þitt gaman.

En ég er ekki einn þeirra og því yrki ég ekki slíkar óþverraferskeytlur.

Gaman væri annars að vita hvursu langt menn eru komnir í Sjálfstæðu fólki. Sjálfur er ég aðeins búinn með rúmar áttatíu og á því tæpar tvöhundruð eftir fyrir prófið. Ég hef nefnilega komist að því að ég get ekki lesið Laxness á einhverju hundavaði. Ég einfaldlega get það ekki. Ég megna varla að lesa nema kafla í senn áður en ég þarf að leggja hann frá mér og lesa eitthvað annað; mér þykir hann skemmtilegur en ég nenni ekki að lesa hann. Sem er leiðinlegt því hann er svo skemmtilegur. Skrýtið …

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *