Nígeríufundurinn

Ég á gamalt hnattlíkan sem sýnir Nígeríu nákvæmlega eins í laginu eins og sjálft meginland Afríku. Það finnst mér merkilegt. Ennfremur finnst mér merkilegt að líkanið sýnir borg í Nígeríu sem heitir Garún, líkt og unnusta djáknans.

Sé málið hinsvegar aðgætt sést að hvorki er Nígería í laginu eins og Afríka né er þar borg sem heitir Garún. Hins vegar er landsvæði sunnan við Kamerún sem heitir Gabon.

Nú er hnattlíkanið mitt þýskt og komið til ára sinna. Útskýrir það stafsetningar- og landamæramuninn?

Fyrst ég minntist annars á djáknann góða á Myrká er rétt að geta þess að fyrir einum tólf árum eða svo var sýnd teiknimynd í Sjónvarpinu eftir þjóðsögunni. Í myndinni var ekkert tal en tónlistin var hins vegar sérdeilis draugaleg. Þá freista ég þess að spyrja lesendur hvort þeir muni eftir téðri teiknimynd, hvort þeir viti hvers vegna hún var ekki talsett og hverjir gerðu myndina og af hvaða tilefni.

Ekki þykir mér líklegt að ég fái svar við neinni þessara spurninga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *