Afmæli og ljóð

Á þessum degi fyrir 25 árum fæddist bróðir minn eldri. Nákvæmlega sama dag var John Lennon myrtur af náunga að nafni Mark David Chapman. Sá síðarnefndi hefur enn ekki fengið reynslulausn þrátt fyrir margar beiðnir.
Í tilefni dagsins væri ef til vill rétt að birta hér einhverja fyndna sögu af bróður mínum. Ég geri það kannski á eftir.

Í gær keypti ég mér ljóðabækurnar Blandarabrandara eftir Eirík Örn Norðdahl og Staka jaka eftir Árna Larsson.
Mér fannst Blandarabrandarar illlæsileg á köflum, en ég fann oftast merkingu í ljóðunum. Hugmyndin að baki þessari bók er að taka eldri texta, hræra þá saman svo upphaflega samhengið finnist ekki, og birta aftur í brenglaðri uppröðun. Sjálfur hef ég tekið þátt í sams konar tilraun með forritinu hans Jóns Arnar, DADDA (áreiðanlega kennt við dadaisma). Áreiðanlega hefur þetta verið gert mun oftar. Í heildina litið er þetta bók sem býður öðrum ljóðabókum fremur upp á nýja túlkun í hvert sinn sem hún er lesin. Að sama skapi verður lesturinn aldrei eins eftirminnilegur.

Stakir jakar eftir Árna Larsson er stórfyndin á köflum, sumpart torskilin. Í henni má finna ádeilu á stríðsrekstur og neyslusamfélag nútímans, og Árni leikur sér að orðunum til að veita þeim tvöfalda, stundum þrefalda merkingu. Oftast heppnast það ágætlega, en ekki alltaf. Í heildina séð er bókin fín. Ljóð dagsins er úr Stökum jökum og er sérstaklega fyndið okkur fyrrverandi nemendum hans:

Graffiti del maestro

löngu hættur
að leiðrétta stíla

laumast stundum út á planið
og rispa með stofulykli

í bónfægða lakk
húðina

á bílum
nemenda minna

algengar
villur