Jólasveinninn er víst til

„Jólasveinninn er ekki til“, úthrópar séra Flóki á forsíðu DV. Ég spyr nú bara á móti: Eru einhverjar sannanir fyrir því að hann sé ekki til? Við höfum skriflegar heimildir fyrir tilvist margra jólasveina frá 19. öld, sem þá höfðu lengi varðveist í munnlegri geymd. Fjölmiðlar tala um þá líkt og þeir séu til, og hafa gert lengi, eða alveg frá því jólasveinninn hóf að sýna sig meðal fólks. Þar að auki hefur loftvarnasamband Bandaríkjanna og Kanada fylgst með ferðum jólasveinsins í mörg ár. Síðast en ekki síst get ég endalaust tuðað um að það þurfi aðeins trúarrökin, því ég viti að hann er til. Þau rök hljóta að duga á presta, fyrst þeir telja þau nógu góð fyrir alla aðra.