Jólasveinninn er víst til

„Jólasveinninn er ekki til“, úthrópar séra Flóki á forsíðu DV. Ég spyr nú bara á móti: Eru einhverjar sannanir fyrir því að hann sé ekki til? Við höfum skriflegar heimildir fyrir tilvist margra jólasveina frá 19. öld, sem þá höfðu lengi varðveist í munnlegri geymd. Fjölmiðlar tala um þá líkt og þeir séu til, og hafa gert lengi, eða alveg frá því jólasveinninn hóf að sýna sig meðal fólks. Þar að auki hefur loftvarnasamband Bandaríkjanna og Kanada fylgst með ferðum jólasveinsins í mörg ár. Síðast en ekki síst get ég endalaust tuðað um að það þurfi aðeins trúarrökin, því ég viti að hann er til. Þau rök hljóta að duga á presta, fyrst þeir telja þau nógu góð fyrir alla aðra.

7 thoughts on “Jólasveinninn er víst til”

  1. Ég ætla vera ótrúlega nasal núna og benda á að NORAD er ekki flugher Bandaríkjanna heldur loftvarnarsamband Bandaríkjanna og Kanada.
    Vildi vera leiðinlegur.

  2. Ég skil það að hann hafi ekki viljað ljúga, en hann á þá að segja bara við börnin að hann viti ekki hvort hann er til. Þvílík vitleysa að koma sér í þessa aðstöðu. Flóki Kristinsson er duglegur að gera mál sem koma honum í fjölmiðla í neikæðum tón.

  3. Já, e.t.v. væri hann þá ekki að ljúga ef hann segðist ekki vita það. Nema að síra Flóki hafi fundið sönnun þess að jólasveinninn sé ekki til. Enginn sönnun er alltént fyrir kólasveinum, fremur en guði, og aðeins munnlegar heimildir fyrir þeim íslensku. Eru haldbærar sannanir fyrir að heilagur Nikulás hafi verið til? Kannski bara frásagnir? Nú þekki ég það ekki.

  4. Að öllu gamni slepptu finnst mér þetta bara fyndið. Alveg rétt hjá Ármanni, barnið þitt var að lesa DV og þú hefur áhyggjur af að það hafi lesið eitthvað misvísandi um jólasveininn!
    Fyrir utan það auðvitað að jólasveinatrú er mest iðkuð praktískt af börnum yfir átta-níu ára aldrinum.

  5. Já, ég raunar vissi það, en oft skrifar maður bannsetta þvælu þegar maður er ekkert að spá og þá er ágætt að fá leiðréttingar.

Lokað er á athugasemdir.