Nýtt ár hefst að nýju

Ég sé það er greinilega komið nýtt ár. Nýja árið mitt hefst í Finnlandi, svona til þess að gera. Þangað held ég eftir einn og hálfan sólarhring og verð í viku. Allt annað liggur í lausu lofti hjá mér þessa dagana, ekkert öruggt, allt í handahófskenndri óreiðu og hugarflugslysum. Veit stundum ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Það er svo margt. Og það er of margt sem ég þarf að skilja við þegar ég fer utan. Áreiðanlega verður að skilja við það eins og að vita upp á sig hræðilegan glæp sem seinna kemur í bakið á mér. Áreiðanlega á mér eftir að finnast ég lokaður af handan tíma og rúms á nokkurs konar óræðu millibilstilvistarplani, síðustu biðstöð púrgatóríunnar, í snjó og fimbulkulda. Þannig líður víst mörgum í Finnlandi.
Ekki svo að skilja að mig langi ekki til Finnlands. Ekki svo að skilja að mér muni þykja leiðinlegt í Finnlandi. Þvert á móti. Hitt er svo annað, að hefði ég vitað fyrirfram allt hvað ætti eftir að gerast milli þess að ég tók að mér ferðina og þess að ég færi, þá hefði ég heldur haldið mig heima. Án efa verð ég ekki með hugann við efnið sem skyldi. Sem skyldi. En auðvitað geri ég mitt besta.

Af hverju var ég að skrifa þessa færslu? Er til leiðinlegri og gagnslausari útlisting á þversagnakenndari lúxustilvistarkrísu? Bah, gleymið því að þið lásuð þetta.

4 thoughts on “Nýtt ár hefst að nýju”

  1. Alls ekkert leiðinleg færsla. Gerir mann kannski pínu forvitinn 😉 En ég get ímyndað mér svona nokkurn veginn hvað um ræðir! En gleðilegt ár Arngrímur minn og takk fyrir það gamla 🙂
    Silja

  2. Ég segi það aftur, þið hafið rangt. Varðandi hvort allt sé í sóma, þá veit ég það ekki, en ég er líka ekki að tala um það sama og þið. Þakka samt hlýhuginn. En ætli ég loki ekki fyrir frekari vangaveltur um þessi efni.

Lokað er á athugasemdir.