Margþætt færsla

Pólskir fánar prýða alla snjóplóga núorðið. Ætli arðrændir pólskir verkamenn á Íslandi séu loks að vakna til meðvitundar og samkenndar hver með öðrum? Gott ef satt reynist.

Bóndadagur á næstu grösum. Mér væri nær að eignast kærustu fyrir þann tíma. Svo er konudagurinn í september, en þá fær karlinn að stjana við við sína, eins og það eigi að vera spes dagur til þess án þess að neitt sé gert restina af árinu. Svo er einnig til mæðradagur, en þá fá mæðurnar loks eitthvert smáræði fyrir helvítið af að hafa alið skepnurnar sínar upp. Hinsvegar er enginn feðradagur. Þessu þarf að ráða bót á. Ég legg til að á feðradegi sé feðrunum ekki gefin blóm, heldur þurfi börnin að taka þeim fram á þeirra eigin sviði. Það hljómar a.m.k. dáldið eins og staðalmynd paternískra væntinga.

Muna lesendur eftir hvíslleiknum svokallaða? Í honum setjast allir í hring, sá fyrsti finnur orð og hvíslar að þeim sem situr á vinstri hönd sér, sá hvíslar að næsta o.s.frv. uns hringnum er lokið. Oftar en ekki er orðið farið fjandans til á leiðinni. Eitt hef ég rifjað upp við þennan leik sem fór alltaf óstjórnlega í taugarnar á mér. Það var nefnilega alltaf þannig, að ef maður heyrði ekki hvað fyrri maður sagði, þá þurfti maður að gera sitt besta til að segja næsta hvað maður heyrði. Nú, en ef maður heyrði ekki hvað orðið var, hvernig átti maður þá að giska? Oft gat það verið erfitt. Dæmi:
Hvíslari: „Schsschíschoss.“
Næsti: „Ha?“
Hvíslari: „SCHSSCHÍSCHOSS!“
Kennari: „Haltu áfram.“
Næsti: „En ég heyrði ekki neitt!“
Kennari: „Haltu áfram áður en ég ríf af þér andlitið, mouahh!!“

Annað sem fer í taugarnar á mér, er þegar ég tala við fólk af erlendum uppruna á íslensku og næsti maður tekur til við að þýða (eða hvað heldur hann að hann sé að gera?), það sem ég sagði á íslensku, aftur yfir á íslensku. Dæmi frá því í dag:
Ég: „Þessi vara er því miður ekki til.“
Maður (lítur á konu sína): „Þetta er ekki til.“
Kona: „Hvenær kemur hún aftur?“
Ég: „Ég get því miður ekki séð það.“
Maður (við konu sína): „Hann getur ekki séð það.“

Og koll af kolli og kolli af kolla og kolla af kollu út í hið óendanlega gekk þetta svona. Mig langaði helst að rífa af manninum andlitið.

One thought on "Margþætt færsla"

  1. Alliat skrifar:

    Ég dýrkaði að hafa eitthvað hneykslanlegt orð þegar ég fór í þetta á mínum grunnskólaárum. Oftast gekk orðið eitthvað áleiðis áður en röðin kom að blygðunarkenndri stelpu í bekknum sem hlustaði… roðnaði, hlustaði aftur og hrópaði svo: „PÍKAAAH!!!?!?“ og allir heyrðu orðið svo leikurinn skemmdist. Svo hófst það langa ferli að rekja til baka til þess að finna þann sem kom þessum óskapnaði að hinum börnunum. Ef þetta náði alla leið til baka til mín áður en bjallan hringdi bar ég við að ég hefði sagt „píta“ eða eitthvað álíka sem hljómaði eins.
    Aaahhh… Grunnskólaárin voru gyllt. 😛

Lokað er á athugasemdir.