Vor í febrúar, snjór í apríl. Í smásögunni Snjór í apríl eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson reynist kynleg veðrátta vera þónokkur örlagavaldur. Læt vera að nýsprottnir laufsprotar reykvískra trjáa muni kúvenda mörgum lífum, en í það minnsta hafði ég ekki fundið fyrir svo tærum stemningum í lengri tíma, líkt og allt árið eins og það mun verða hafi staðið mér skýrt fyrir hugskotssjónum, öll mín markmið, allar ambísjónir, allar sömu væntingar sem iðulega eru gerðar til nýs árs en ég geri aldrei (vegna þess að áramót eru ekki tímamót), allt fannst mér ég hafa á hreinu þar sem ég sat á Prikinu með kaffibolla og horfði út um gluggann á íslenska febrúarvorið. Engu að síður vissi ég, meðan vorhugurinn réðist á mig úr öllum áttum með rómantískum áróðri um fuglasöng í andvara sumardags á grænum grundum, að líkast til mun snjóa í apríl, líkt og undanfarin ár, og að alltaf munum við verða eins hissa á því.
2 thoughts on “Vor í Reykjavík”
Lokað er á athugasemdir.
Nei! Það má ekki snjóa í apríl! Þá ætla ég að halda afmælisgarðveislu! Ég reiknaði með því að fyrst vorið kæmi svona snemma gæti vel verið komið ágætis sumarveður í byrjun apríl. Æ ég tjalda þá bara yfir garðinn og bið pabba að kaupa hitara…
Hvur veit nema það verði prýðisveður. Hinsvegar hafa síðustu þrír aprílmánuðir allir innihaldið einn snjódag, hvorki fleiri né færri, en hvurn þeirra varði það ekki nema skamma stund. Svo varla þarftu að hafa miklar áhyggjur 🙂