Slitur úr daglega lífinu

Meðal síðustu verka minna í félagsstarfi skólans:
1. Að koma á mannsæmandi jafnréttisáætlun sem krefst þátttöku nemenda.
2. Að leggja fram lagabreytingatillögu á lögum skólafélagsins er snúa að listafélaginu. Það skal leggja mesta áherslu á listir.
3. Að leggja fram lagabreytingatillögu á lögum skólafélagsins er viðvíkja hverjir samþykkja lagabreytingatillögur. Það skal vera í höndum nemenda, ekki kjörinna fulltrúa þeirra.
4. Leggja það til að allar fundargerðir skólaráðs og skólanefndar, utan við trúnaðarupplýsingar sem þar kunna að koma fram um einstaka nemendur, verði gerðar opinberar hverjum þeim er lesa vill, sé það ekki nú þegar svo.

Annað kvöld fer ég á grímuball sem ég man ekki hvar verður haldið eða hver heldur. Ég hefi orðið mér úti um búninginn (eina grímu, hitt átti ég til). Án efa mun ég vekja nokkra athygli. Hvað annað grímubúningatengt varðar hef ég ákveðið að dimmitera borgaralega. Ég á einfaldlega ekki til tólfþúsund krónur fyrir grímubúningi og neita að slá lán fyrir slíkum. Það sem ég annars gæti gert við tólfþúsund krónur ef ætti ég þær til.

Í dag verður svo haldið áfram með ritgerðina sem hefur verið að gera mig gráhærðan síðasta mánuðinn. Næ kannski að klára hana yfir helgi. Á sunnudaginn er svo spennandi fundur og ferð á Túskildingsóperuna strax í kjölfarið. Það vantar ekki aktivítetin.