Þegar ég var lítill var starfrækt leikfangaverslun hér á Laugarnesveginum, í sama húsi og kaupmaðurinn í Laugarneskjöri var. Oftastnær var verslun þessi lokuð og fór ýmsum sögum af ástæðu þess. Sú skýring sem vinsælust var meðal okkar krakkanna var sú að verslunareigandinn væri í raun glæpon og verslunin væri aðeins skálkaskjól fyrir myrkraverk hans og óprúttinna viðskiptamanna hans.
Stundum var verslunin þó opin en síst skyldi segja að þau skipti hafi bætt nokkuð orðstír verslunareigandans. Því í hvert skipti sem barn steig svo mikið sem einum fæti innfyrir dyr verslunarinnar, þá klingdi í bjöllu sem þar hékk fyrir ofan og verslunareigandinn kom stökkvandi fram úr lagerdyrunum eins og morðóður Prefontaine, öskrandi á okkur að börn væru ekki velkomin í versluninni. Það vissum við börnin þó að væri eitthvað öfugsnúið, því hverjir aðrir en börn vilja versla við dótabúðir?
Eitt var það skiptið að ég fékk að stíga fæti þar innfyrir án þess mér væri hótað lífláti. Þá var pabbi nefnilega með í för; við höfðum þrætt helstu leikfangaverslanir bæjarins, Leikbæ, Vedes og Liverpool, í leit að vissu leikfangi sem hvergi virtist fást, og forboðna dótabúðin var síðasti (ó)raunhæfi möguleikinn. Eigandinn kom fram við okkur af mestu virðingu, sagði mér þó alltaf, hálfgnístandi tönnum, að snerta ekkert í hvert það skipti sem hönd mín straukst við hillu. Ég hafði engu minni ímugust á manninum þótt fílefldur faðir minn stæði á milli okkar. Eigandinn útskýrði svo fyrir pabba hvers vegna ég mætti ekki snerta neitt, hann hefði átt í svo miklum vandræðum með börnin í hverfinu, sem ekkert virtu lengur. Hann lýgur þessu! hugsaði ég. Við fengum aldrei séns!
Leikfangið var ekki til en mér stóð orðið alveg á sama. Þegar við gengum út upplýsti ég föður minn um alla málavöxtu, að þessi maður væri glæpamaður, jafnvel morðingi, sem hataðist við börn. Hver væri tilgangurinn með dótabúð bannaðri börnum, sjaldan opinni, með úreltum leikföngum (ójá, maður sá muninn á draslinu þarna og fyrsta flokks leikföngum Vedes!)? Pabbi leit niður fyrir sig og svaraði þannig aðdróttunum mínum að verslunareigandinn ætti bágt. Ég var ekki sannfærður.
Kannski um ári síðar lagði verslunin þögult upp laupana og plássið stóð autt um skeið uns þar opnaði eitt af fyrstu netkaffihúsum borgarinnar (sem stóð ekki nema í ár vegna kauðalegrar staðsetningar og náttúrlega því að enginn vissi að það væri til). Enn þann dag í dag þykir mér allt fremur skrýtið er viðkemur forboðnu dótabúðinni og ískyggilegum eiganda hennar. Og enn þann dag í dag er ég ekki viss um hvort allt hafi verið þar slétt og fellt. Í dag, löngu eftir daga Laugarneskjörs, dótabúðarinnar og netkaffihússins, eru eingöngu íbúðir í húsinu. En í hvert sinn sem ég geng þarna framhjá verður mér hugsað aftur til liðinnar tíðar þegar sólin skein og heimsmyndin var einfaldari.
Þú verður að rannsaka þetta mál nánar Arngrímur. Svo geturðu skrifað metsölubók um málið. Skemmtileg frásögn.
Takk fyrir það. Minningarbrotin eru einmitt hálfgerð útrás fyrir stílistann í mér. Aldrei að vita nema metsölubókin verði að veruleika!