Vaknað að morgni og bloggað

Ég vaknaði með hugmyndina og beinagrindina að næsta bókmenntasögulega þrekvirki í hugskoti mér. Móðir mín hinsvegar drap hana með tilraunum sínum tíu til að vekja mig þar sem ég lá vakandi undir sænginni að berjast við að festa hana í minni mér, eftir aðeins um þriggja tíma svefn. Hugmyndin farin eitthvert annað. Kannski les ég bókina þegar Jón Þorgilsson á Seyðisfirði hefur skrifað hana, eða Heinz von Horsttappert í Ulm.

Fyrir kóðunarnerði sem auðveldlega impónerast skal það upplýst að í gær stal ég javascript kóða frá Gneistanum (hann hefur rétt, ég er sætur í IKEA-gallanum) sem knýr dulspekilegan mechanisma sem gerir mér kleift að hafa ótakmarkað magn spássíumynda sem birtast handahófskennt þegar einhver heimsækir þessa síðu. Í augnablikinu eru þær fjórar: Sú gamla, tekin á bar uppi á Gíbraltarkletti, ein tekin í Marokkó nokkrum dögum áður, sú þriðja sjálfsagt tekin snemma árs 1985 og sú fjórða er eitthvað voðalega artí. Spennan eykst eftir því sem eykst á flóruna: Hvernig verður sú fimmta!

Nú laga ég mér kaffi. Í gær drakk ég sem nemur, nei til hvers að segja það sem enginn fær trúað. Gæti þessvegna sagst hafa flogið í skólann. En nú laga ég mér semsagt kaffi, gíra mig svo upp og verð vel stemndur fyrir kynningarfund Samtakanna ’78 í skólanum, sem ég og fleira gott fólk hefur staðið í töluverðu stappi við að fá þangað. Ekki vegna tregðu samtakanna, takið eftir, heldur vegna tregðu maskínunnar, sem aldrei hefur verið beygluð og beygð á svo róttækan hátt í áttina til aukinnar jafningjafræðslu og jafnréttisumræðu. Að vonum er ég því spenntur að sjá viðbrögðin. Ef illa gengur tryllum við lýðinn til hlýðni með loforðum um leika og brauð.

Í öðrum fréttum hefur cand. psych. neminn hann bróðir minn játað sig sigraðan fyrir ritgerðinni minni. Það er mér eiginlega óskiljanlegt, maðurinn les flennistórar óskiljanlegar greinar daglega um cognitive hitt og dissonance þetta (híhí), en svo þegar honum er boðin mannkynssaga á kjarnyrtri íslensku þá lúffar hann. Nei, ég er ekkert hissa. Þessi ritgerð er skrímsli sem engu eirir. Ég held ég hafi fyrir tilviljun dottið niður á uppskriftina að akademískum ragnarökum.

2 thoughts on “Vaknað að morgni og bloggað”

Lokað er á athugasemdir.