Þrælaskip

Málverk dagsins er Þrælaskip Josephs Mallards Williams Turner frá 1840. Þótt viðfangsefnið sé gróteskt (verið er að kasta dauðum og deyjandi fyrir borð) er myndbyggingin og litaflæðið svo magnað að nær ómögulegt er að lýsa því með orðum. Myndin nýtur sín betur úr fjarlægð svo ég mæli með því þið bakkið um nokkra metra frá skjánum og njótið hennar þannig.

Tveir pistlar

Þessi pistill er bæði lélegur og gjörsamlega tilgangslaus. Hann er samt fyndinn. Allar vangaveltur um hvernig það hefði nú verið hefði þessi eða hinn lifað lengur eru nefnilega í eðli sínu bæði lélegar og tilgangslausar, og enda þótt það geti verið fyndið að agnúast út í slíkar hugleiðingar er það alveg jafn lélegt og tilgangslaust, vegna þess að slíkar hugleiðingar eru tiltölulega saklausar svo lengi sem þeim er ekki fleygt fram sem staðreyndum eða raunverulegum líkindum.

Þessi pistill er hinsvegar hvorki lélegur né tilgangslaus. Sjálfur færist ég æ nær þeirri skoðun að tungutak fólks skipti ekki höfuðmáli svo lengi sem merkingin kemst til skila. Sumum þykir málið afar kynbundið og vilja afkynvæða það. Þetta er ekki hægt svo vel sé, og í raun fyllilega tilgangslaust. Kyn orða hafa nefnilega enga raunverulega skírskotun í kyn þess fólks sem um ræðir. Gott dæmi er das Mädchen í þýsku (stúlkið). Í raun er tungumálið fyrst kynvætt þegar tilraunir til afkynvæðingar eiga sér stað; þar sem kyn orða höfðu áður enga skírskotun til raunveruleikans veitist þeim hún með afkynvæðingunni. Þetta er hinsvegar kannski ekki neitt sérlega mikilvægt. Það sem er mikilvægt er að við þyrftum að finna nýjar leiðir til að orða sömu hluti og að „þýðing“ eldri setninga yfir á hina nýju málfarsstefnu gæti riðlað merkingu þeirra. Grunnpunkturinn er svo vitaskuld sá: Tungumálið þróast ekki vegna þess þú segir því að gera það. Þannig virkar það bara því miður ekki.