Dagskráin í dag

Þá hef ég heimt hattinn minn úr helju (Hópferðamiðstöðinni). Ég nefnilega gleymdi honum í rútunni á föstudaginn. Þurfti að lemja hann dálítið til en það sér ekkert á honum, sem betur fer. Voða viðkunnanlegur bílstjórinn líka, ekkert að pirra sig á svona skussa.

Svo er það atvinnuviðtal hjá Borgarbókasafninu á eftir. Það er ekki laust við að ég sé dálítið stressaður. Enda ekkert smá í húfi. Rakleiðis þar eftir þarf ég að kíkja upp í skóla að hnýta nokkra lausa enda. Sumir kennarar þurfa bara að fá verkefnin dálítið seint. Þegar heim kemur fer ég svo að vinna í téðum verkefnum. Svo hefst prófalesturinn. Já, þá verður gaman að lifa.

Vegna viðtalsins þurfti ég að hafna kynningarferð með Svandísi Svavars upp í Verzló, sem hittist á sama tíma. Kannski eins gott, ég hefði farið sundur á límingunum af stressi. Ég veit yfirhöfuð ekki hvort ég treysti mér í þannig lagað. Finnst best bara að þvaðra um pólitík á netinu.

Sex dagar uns líður að starfslokunum miklu. Í fyrst datt mér í hug að kannski ætti ég eftir að sakna einhvers úr IKEA en gærdagurinn sló þá vitleysu alveg úr mér. Það er bara ekki ég að vinna við sölu. Þó get ég sagt að langstærstur hluti viðskiptavina hafi farið frá mér með bros á vör. Þó manni leiðist vinnan er ekki þarmeð sagt maður standi sig illa í henni. Onei.