IKEA – sjáumst í næsta lífi!

Ég verð ekki í fríi á baráttudegi verkalýðsins á morgun. Það er vegna þess að frá klukkan sex í kvöld hef ég verið atvinnulaus. Vonir standa þó til að það verði ekki lengi, bókasafnið sveik mig um svar fyrir vikulok svo ég neyðist til að hringja sjálfur á þriðjudaginn. Mikið er nú samt gott að vita sig frjálsan frá afgreiðsluborðum húsgagnadeildar IKEA.

Annars gleymdi ég að taka kollhnísinn sem ég hafði alltaf lofað sjálfum mér. Kannski maður geri sér bara sérferð einhverntíma. En fyrst ég er laus á annað borð leyfi ég mér að spyrja opinberlega: Er þetta ekki grín? Sérstaklega myndin neðst til vinstri.

Ljóð dagsins er svo eftir sjálfan mig og heitir „Skilaboð frá Svíþjóð“:

EKKI TIL EN
VÆNTANLEGT
HAFÐU
SAMBAND VIÐ
AFGREIÐSLUFÓLK
Feis!

Flottræfillinn

Fyrir sýndarmennsku sakir tek ég fram að síðastliðið föstudagskvöld fór ég með góðu fólki út að borða á Rossopomodoro. Ég er að hugsa um að gera það mánaðarlega, það er nefnilega svo ódýrt. Maturinn er líka ágætur. Finnst samt ekkert sérlega heillandi að þurfa að horfa á kokkana elda hann. En kannski er þetta framtíðin. Kannski mun einn dag opna hér íslenskur veitingastaður, slátur á boðstólum, viðskiptavinirnir fengnir til að horfa á þá sauma saman blóðuga keppina. Jájá, öfgar, ég veit.

Hér hefur áður verið bloggað um húsnæðismál. Nú er ég að hugsa um að þekkjast boð um herbergiskytru í vesturbænum. Það kostar 30.000 krónur á mánuði. Það er þó óvíst að það verði ennþá laust þegar haustar. Alltsaman kemur þetta í ljós á endanum. Mun frekar vildi ég þó borga aðeins meira og geta leigt eitthvað aðeins stærra með góðum meðleigjanda. En mér sýnist fokið í flest skjól með þessa blessuðu meðleigjendur, fæstir vina minna neitt að flýta sér að heiman.