Framþróun íslenskrar pólitíkur

Nýlega hafa félagar mínir sumir gerst svo frægir að espa upp stjórnmálamenn á vefsíðum sínum. Þórunn líkti Birni Inga Hrafnssyni við Glanna glæp, svo sá í miðið, nema hafi það verið spaugari, fann sig knúinn til að gera við það athugasemdir. Þorkell fékk svo yfir sig ausu frá náunga sem a.m.k. þóttist vera Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Þrátt fyrir magnaða eftirhermu finnst mér þó hæpið að það sé hann. En merkingarlausu kratatuggurnar hafði hann alveg á hraðbergi.

Mér finnst það stórkostlegt ef þetta er upphafið að alþýðuvæðingu stjórnmálamanna, að þeir taki sig til og svari sakleysislegum háðsglósum alþýðunnar í vörn fyrir sjálfa sig, þótt mér þyki eilítið kindarlegt ef stjórnmálamenn ætla að fara að veita almenningi aðhald en ekki öfugt. Kannski fíla þeir sig sem kúgaða: Nei við erum HÆTTIR að taka við aðhaldi frá ykkur! Hvernig haldiði þetta sé!? Hver sagði svo að framsóknarmenn væru ekki framúrstefnulegir? Það væri líka alveg rétt hjá þeim, það er aðeins skiljanlegt að hinir kúguðu rísi loks upp gegn kúgurum sínum. Eða hvað segir íslenska bændastéttin? Jæa, hvernig sem því er nú farið getum við ef til vill átt von á meira réttlæti í heiminum á næstu misserum. Hver veit nema verkafólk verði loks látið segja af sér fyrir að „gleyma“ einhverjum hluta verkskipulags eða draga sér matarmiða.

Allt er þetta í góðu gamni sagt og eingöngu í þeirri góðu trú að nú fái ég ausu frá þeim Ágústi Ólafi og Birni Inga. Nema það þyki merkilegri dylgjur að líkja mönnum við Glanna glæp og hafna einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Ójá, þetta er keppni. Keppni í hver fær sem flest komment frá samtíðarstjórnmálamönnum. Án þess þó að fara yfir strikið.

4 thoughts on “Framþróun íslenskrar pólitíkur”

  1. Ja ef það er Bingi Glæpur sjálfur sem er á ferðinni inn á mínu bloggi, þá hefur hann greinilega ekki mikið álit á sjálfum sér sem stjórnmálamanni 😉 En að sjálfsögðu geng ég út frá því að kauði sé á ferðinni.

  2. Ég vildi ekki að þú héldir að þetta væri Bjána-Bjössi í raun.

Lokað er á athugasemdir.