Í ágúst 2003 fór ungur námsmaður í sína fyrstu utanferð í fjórtán ár, til sjálfrar vöggu vestrænnar menningar, Krítar. Það var þar, í bænum Chania, í öngstræti útfrá verslunargötunni skammt frá feneysku höfninni, að ungi maðurinn leit inn í litla, illa merkta verslunarkytru.
Það fyrsta sem mætti unga manninum í illa upplýstu rýminu var notaleg reykelsislykt. Kerti lýstu upp verslunina, og í fljótu bragði leit út fyrir að hann væri einn þarna inni. En þegar hann var sokkinn ofan í munina varð hann þess var að fylgst var með honum. Það var ævaforn kona, góðleg til augnanna, hrukkurnar eins og köngurlóavefur framan í henni, hárið bundið aftur en tjásur stóðu upp úr. Hún var í rósóttum kjól eins og allar alvöru gamlar konur. Hún mælti til unga mannsins á grísku. Hann yppti öxlum til hennar og brosti lítið eitt; hann skyldi ekki hvað hún sagði. Gamla konan kinkaði til hans kollinum og brosti sínu blíðasta.
Eftir umtalsverða leit gegnum margvíslega muni konunnar, sem voru ekkert sérlega áhugaverðir, datt ungi maðurinn niður á litla hasspípu. Hann hafði ekki hug á að nota hana til neins, en fannst hún flott og ákvað að kaupa hana af gömlu konunni, svona til að kaupa eitthvað af henni. Hann rétti henni pípuna og reiddi fram Visakortið sitt, áttaði sig strax á hvatvísi sinni og dró kortið skömmustulega aftur til baka. Gamla konan hafði þó séð kortið, mælti speki sína á grísku og dró rykfallið straukefli undan afgreiðsluborðinu. Rykið þyrlaðist upp í reykelsismettað loftið þegar hún skellti því á borðið. Hálfvegis setti ónot að unga manninum. Það tók gömlu konuna minnst tuttugu mínútur að strauja kortið.
Þegar ungi maðurinn hafði greitt gömlu konunni fyrir hasspípuna fannst honum sem nógu miklum tíma hefði verið eytt inni í versluninni og ætlaði út. Gamla konan virtist ekki vera sama sinnis, heldur tók hún til við að kenna unga manninum hvernig ætti að bera sig að við að reykja pípuna, skrúfaði hana alla í sundur og aftur saman af auðfenginni reynslu áranna. Inn á milli laumaði hún stuttum, grískuskotnum hlátursrokum að unga manninum, og hnippti í öxl hans. Eftir sýnikennsluna pakkaði hún pípunni inn í fallegan gjafapappír með mynd af Pegasos og Kringlukastaranum. Í kaupbæti gaf hún honum lítinn, gulli skreyttan íkon of Maríu mey. Það fannst henni viðeigandi kaupbætir með hasspípunni. Þvínæst signdi hún sig, þá unga manninn, og brosti góðlátlega til hans þegar hann kvaddi hana og gekk út í sólskin götunnar.
Þegar ungi maðurinn sneri heim frá Krít gaf hann móður sinni íkoninn af Maríu, með þeim útkýringum að afskaplega trúuð, góð, gömul kona hefði gefið sér hann með Guðs blessun. Það fannst móður hans góð gjöf. Tilvist hasspípunnar hefur þó hingað til ekki fylgt sögunni. Það er spurning með hvaða ráðum ungi námsmaðurinn ætlar að losa sig við hana nú þegar hún hefur fundist, eftir þriggja ára veru á löngu gleymdum leynistað. Því þannig er nú það, að eignin er alltaf vandræðaleg, enda þótt hún hafi aldrei verið notuð.
Verður ungi maðurinn ekki bara að byrja að reykja stuð?
Nei, hann er svo lítið fyrir svoleiðis.
Hrífandi lesmál.
María mey er vel við hæfi í kaupbæti með hasspípu.
Takk fyrir það. Og já, María var kannski dálítið speisuð …