Á miðnætti hefst síðasti heili sólarhringurinn sem ég eyði á Laugarnesvegi 100, heimili mínu í hartnær sextán ár. Tómir kassar standa fyrir utan herbergið, hvar inni ég sit og hlusta á tónlist sem ég er löngu hættur að hlusta á nema ef til væri að vekja upp minningar. Það er ekki að virka. Greinilega er ég kominn yfir það; líklega eru það hálf-mislægu gatnamótin og tröllvaxna aðreinin sem verið er að þröngva inn í litlu götuna mína. Það vantar bara álver og stemningin væri fullkomnuð.
Kannski gerist það á morgun, kannski kem ég að sjálfum mér mænandi út um gluggann á kvöldhimininn í minningavímu, brosandi með sjálfum mér. Kannski eitt rauðvínsglas með til að kveðja endanlega. Kannski. Kannski er stærsta orðið.
Eiga ungir menn ekki að vera dauðfegnir að sleppa að heiman?
Jú, en það er aðeins hálfvegis að heiman. Í ofanálag er ég rótfastur nostalgíker. En ég er feginn engu að síður.