Nú eru síðustu forvöð að skoða landsvæðið sem enginn hefur komið til, raunverulegt draumaland, stærsta svæði ósnortinnar náttúru sem eimir eftir af í Evrópu. „Við erum forréttindakynslóð,“ sagði Ómar Ragnarsson, „við verðum fyrst til að sjá hálendið í allri sinni dýrð, og sjáum jafnframt til þess að enginn annar muni sjá það aftur“. Hvað er svo sem hægt að sjá við Kárahnjúka? Kannski ekki mikið núna utan drullugar leifar Dimmugljúfra og urmul vinnuvéla, en það sem fyrir handan er, þar liggur ormur á gulli. Eins og sjá má af þessum myndum. Það er meira en bara hnjúkurinn, það er heil veröld ónumin, sem best skyldi haldast ónumin; griðastaður einstakrar náttúrufegurðar og dýralífs í heiminum til árþúsunda; griðastaður sem sjálfum verða engin grið gefin, og senn fer undir vatn.
Pólitíkin hefur firrt okkur svo að kjarni deilunnar hefur snúist um hagvöxt og hvort andmælendur stíflunnar hafi einu sinni komið á fjallið. Enginn spurði þá sömu hvort þeir hefðu siglt niður Yangtze eða Amazon; séð norska skóglendið eða komið að Nílarósum. Alveg áreiðanlega hlýtur að mega rústa þessu öllu. Raunar er verið að rústa þessu flestu, ef ekki er þegar búið að því. Skógarnir sleppa. Hvernig ætli hagvöxtur sé í Noregi?
Ef fórna má hlutum óverulegs fjárhagslegs gildis til að sitja fimm mínútum lengur í sólinni, hlýtur að vakna sú spurning hversu langt við viljum ganga. Ef það skiptir þá nokkru hvað við viljum, hlutirnir virðast ganga ágætlega af sjálfu sér. Annað sem skipt gæti máli eru allar þær virkjanir og álver sem enn sitja á vinnuborðinu, nú þegar Framsóknarflokkurinn þykist hafa snúið baki við stóriðjustefnunni. Fyrst hugvit og nýsköpun þykir skyndilega eftirsóknarverð, þá væri kannski ráð að hreinsa borðið og hugsa hlutina upp á nýtt. Það er ef nokkur innistæða væri fyrir hinni meintu stefnubreytingu Framsóknarflokksins. Það er ef nokkuð annað en fjárhagsleg rök skiptu máli í þessari umræðu.
Hvernig sem á það er litið flykkist nú fólk austur á land til að sjá það sem það getur áður það er orðið of seint. Þau bera náttúrudýrðinni fagurt vitni, prísa og dásama upplifunina af því að hafa komið „til Kárahnjúka“. Meðan það gat. Nú fer fólk þangað í heilu rútuförmunum, vegna þess það hefur aðeins alla ævina til að sjá eftir því að hafa ekki farið. Ef það er þá það sem raunverulega skiptir máli. Að hafa farið, en geta það aldrei aftur.
Hefur þú komið til Kárahnjúka?
Birtist á Múrnum 26. júlí 2006.