Búinn að taka upp úr flestum kössum, ennþá nokkrir eftir á Laugarnesveginum. Tvær ferðatöskur fullar af fötum sem á eftir að losa. Herbergið mitt er rúmgott og notalegt, þótt ég eigi enn eftir að venjast því að sjálfsögðu. Öll húsgögn komin: Fjórir bókaskápar, skrifborð, rúm, hatta- og fatastandur. Sumsé allt sem nokkurn mann gæti nokkru sinni vantað. Fyrir utan viskí. En ég á svoleiðis líka.
Það fyllir mig undarleg ný stemning. Já, greinilega er ég fluttur, en á ég heima hérna? Kannski ekki ennþá, en von bráðar vonandi. Ég á heldur ekki heima á Laugarnesveginum. Milli þess ég flutti húsgögnin og þess ég kom aftur að sækja bækurnar mínar var komið rúm, náttborð, sjónvarp og tvær mottur inn í gamla herbergið mitt. Litli bróðir alsæll með nýju vistarverurnar.
Nei, ég bý þar ekki lengur og kem líklega aldrei til með að búa þar aftur. Tilfinningin nýja, líklega er það rótleysi. Það er ágætt. Enda eru nýir tímar framundan.
Rótleysi, hah, þú ert að flytja á milli húsa, það vantar nokkrar borgir uppí almennilegt rótleysi 😉 Velkominn annars á Öldugötuna, þetta er auðvitað aðalgata borgarinnar …
Já, satt segirðu, kannski fullsterkt til orða tekið. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég hef búið á sama stað í sextán ár, svo þetta er fremur einkennilegt fyrir mig. Aldahvörf í vissum skilningi, breyttir tímar o.s.frv.
Og já, auðvitað er þetta aðalgatan! Varð skotin í henni um leið og ég fyrst leit hana. Sé þig líklega á vappinu.
Til hamingju með nýja staðinn:) Heima-tilfinningin síast inn um leið og maður hefur prófað að sofa, tefla við páfann, elda mat, bjóða fólki í heimsókn, glápa á sjónvarpið og lesa góða bók. Þá finnur maður að maður er heima.