Í gærkvöldi lenti ég í þeirri hryllilegu aðstöðu að hafa eytt hálfum deginum í að flytja, ætla í sturtu eftir herlegheitin, en uppgötva mér til ægilegrar skelfingar að auðvitað var ekkert sjampó til. Gerði mér það að góðu (foj!), en gerði það að mínu fyrsta verkefni eftir vinnu í dag að kaupa slíkt og brúka það.
Enn lenti ég í andstöðu við máttarvöldin þegar ég vaknaði eftir of lítinn svefn í morgun (grannarnir á hæðinni fyrir neðan héldu partí í gærkvöldi …). Ekkert var tilfáanlegt tannkremið. Aldrei, eins og í morgun, var ég því eins ánægður með að hafa týnt farangri á leiðinni frá Stokkhólmi til Helsinki. Orsakasamhengi? Jú, það er nefnilega svo að í sárabætur fyrir skipulagsklúður Stokkhólmsflugvallar var mér fengin sjálf Neyðartaska ferðalangsins, hvar í mátti finna rakvél og -sápu, handklæði, sjampó, svitarlyktareyði, tannbursta og -krem. Þetta hafði ég óafvitandi haft með mér niður í Vesturbæ. Hve gleði mín var algjör. Hve.
Og hvað haldiði? Klukkan tæplega sjö nú í kvöld uppgötvaði ég þyrfti að haska mér út í Nóatún í JL-húsinu, áður það lokaði. Þar keypti ég mér Orasveppi, Tagliatelle, ostasósu og pott af mjólk (já, pott!!!). Heim kom ek, sótti mér potta, setti pastað á hellu (í potti samt, með vatni í). Þá kom að því að finna dósaopnara –
– skúffurnar úti og innihald þeirra á gólfinu, eldhúsáhöld úti um allt (frásögn ýkt), enginn dósaopnari. Ég inn í búr (hobbitinn ég er með svoleiðis), leitaði, leitaði, leitaði. Ekkert. Nema vasahnífur. Með G.A.M.A.L.D.A.G.S. dósahníf á. Sami mechanismi og sjá má hér. Ég reyndi, ó, hve ég reyndi, að negla hnífnum gegnum skaðræðis dósarandskotann, en allt fyrir ekkert. Dósin glotti til mín illyrmislega. -Við sjáum nú til með það! hugsaði ég, og hljóp til nágrannanna. Þeirra allra. Enginn heima. Það eina eftir í stöðunni – eftir að hafa fleygt skúffunum í veggina í annarri brjálæðislegri leit að dósaopnara – var að negla hnífnum þar í gegn, hvar mér áður hafði ekki sóst atlagan vel.
Nú stendur dósin úti á svalaborði, lítandi út eins og eftir loftárás, þjónandi hlutverki öskubakka, húsráðanda til sárrar munaðarbótar. Pastað eldaðist, sveppirnir brúnuðust, sósan sósaðist, allt þetta blandaðist, allt þetta étaðist – af mér. Nei, Arngrímur Vídalín Stefánsson lætur ekki hæða að sér. Allt þetta, er á daga mína hefur drifið síðan í gær, eru merki um sigur mannsins yfir aðstæðum sínum og náttúrunni. Hve langt vér komin erum í þróun.
össss, þú ættir að týna farangri með Air France e-n tímann. Þá fær kona smokka í neyðartuðrunni.
Hvað ætli karlar fái …