Hef varla getað hugsað um annað en kertafleytinguna í minningu Hiroshima og Nagasaki við Reykjavíkurtjörn í allan dag; hún hefur valdið mér ómældum hughrifum, jafnvel áður en ég fór til að vera viðstaddur. Raunar, þegar á staðinn var komið, var helst til mikið rætt um skáldskap og pólitík. Sem betur fer hef ég þó enn ekki glatað þeirri tilfinningu sem hefur fyllt mig bróðurpartinn úr deginum, tilfinningu sem mig langar að vinna með og móta í sköpunarverk. Það er hræðilegt, það sem Truman skipaði fyrir, og afleiðingarnar sorglegar. Og það er erfitt að finna andagift í slíkum voðaverkum
Í það minnsta má reyna að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Kvöld sem þessi eru til þess að minna okkur á að fólk lét lífið í þessu voveiflegasta hryðjuverki mannkynssögunnar, fólk eins og við, fólk sem enn glímir við afleiðingarnar – geislun, vansköpuð börn, alvarlega og langvinna sjúkdóma. Fólk dó. Það er ennþá að deyja. Það mun halda áfram að deyja ((Samkvæmt þessari heimasíðu eru þrjár gerðir úranísótópa, með helmingunartíma frá um 4,5 milljarða ára til um 244 þúsunda ára. Ég skal ekki fullyrða um helmingunartíma auðgaðs úrans. Helmingunartími plútons er aftur á móti um 24.000 ár samkvæmt þessari heimild. Þykist ég ekki sérfróður, en það mun víst vera úran sem helst hefur verið notað.)). Engum veitir af að vera minntur á það, og engum er skotaskuld úr því að votta virðingu sína. Að fleyta kertum er ekki mikið, en það er það minnsta sem við getum gert.
Íbúar Hiroshima og Nagasaki dóu fyrir að fæðast í landi sem átti í stríði. Það eitt og sér er í senn sorglegt og ósanngjarnt. Gleymum því ekki heldur að kjarnorkuvígbúnaður er enn í fullu fjöri, og enn eru ríkisstjórnir sem segjast ekki munu veigra sér fyrir því að beita slíkum vopnabúnaði. Þar sem eru skotmörk er fólk. Fólk eins og ég, fólk eins og þú, fólk eins og börnin þín. Um stríð hef ég ýmislegt að segja, en hvað snertir notkun kjarnorkuvopna, guð, mér fallast hendur.