Raðir tilviljana

Hitti hana Brynju mína Vals fyrir utan Kringluna, sem gerðist svo elskuleg að skutla mér heim. Ennþá sami hrakfallabálkurinn, nú aðeins nýbúin að brjóta úr sér framtönn á franskbrauði. Jiminn eini, en alltaf jafn æðisleg þrátt fyrir klunnaskapinn.

Reyndist hún þegar á Öldugötuna var komið vera frænka mannsins á hæðinni fyrir neðan. Það vantar ekki raðir tilviljana, nú býr yfirmaður minn á bókasafninu, sem einnig er skyld móður mágkonu minnar auk þess að hafa unnið með henni, á hæðinni fyrir ofan mig. Alræmdi stærðfræðikennarinn úr MS, hann Gísli, býr svo í næsta húsi. Það gera sömuleiðis margir margir aðrir, sem mig óraði ekki fyrir að byggju hér þegar ég flutti inn: Dögg Hugos vissi ég af, svo er Ásgeir H., Ugla Egils, Fífa Finns, Sverrir Jakobs og hvadfornoget, en þá erum við raunar komin í næstu götu.

Gat loksins haldið áfram með An Artist of the Floating World í gær. Alveg er Ishiguro magnaður í að byggja upp stemningu. Eftir því sem lengra líður á bókina verður sögumaður áræðnari og öruggari um sjálfan sig, en frásögn hans sjálfs dregur aftur á móti úr fullvissu lesandans um stöðu og ágæti sögumanns. Ætli mætti ekki kalla þetta helsta einkenni hans sem rithöfundar. Því miður fór hann dáldið geyst með þetta í When We Were Orphans, svo mjög að oft langaði mig helst til að skalla vegginn þegar líða tók á seinni hluta bókarinnar. Hérna tekst honum talsvert betur að spúka lesandann undir rós. Mikil snilld. Get ekki beðið eftir að klára hana!

2 thoughts on “Raðir tilviljana”

Lokað er á athugasemdir.