Af dögum liðnum, líðandi, komandi

Fallegur morgunn á fyrsta degi Bókabílsins eftir sumarfrí, og jafnframt síðasta starfsdegi mínum þar. Allra síðasti dagurinn minn á safninu á morgun. Umsókn mín um áframhaldandi starf í vetur liggur inni, en óvíst er hvar mér verður komið fyrir. Er eiginlega ekki reiðubúinn að hætta í Kringlunni, en það er víst lítið sem ég gæti gert ef ég verð sendur eitthvert annað.
En það var fínt að fá að vera á bílnum í dag, gaf mér tóm til að setjast niður milli tarna á elliheimilum, í blómaangan, sólskini og gosbrunnaniði, með sígarettu og hugsanir mínar einar. Margt sem hægt er að leiða til lykta í huganum þegar maður loks fær frið frá áreiti hversdagslífsins. Oft er rólegt á bílnum. Þess vegna kann ég því vel að vera þar.

Kannski sérstaklega í dag, því annars er allt búið að vera brjálað að gera þessa síðustu daga. Við höfum verið að skipuleggja upplestur Nykurs á Menningarnótt, nánast allt komið á hreint þar.

Svo höfum við Alli verið að skipuleggja tveggja vikna hringferð um landið, á enn eftir að verða mér úti um ýmislegt! Einu reddaði ég í dag, léttu og hæfilega stuttu lesefni til að hafa með mér. Tók mér á safninu Hvar frómur flækist, fjórar ferðasögur Einars Kárasonar. Auk þess hef ég með ljóðasafn Ísaks Harðarsonar, Ský fyrir ský. Það ætti að duga. Ferðin sjálf ætti svo að duga mér til vinnu að fyrsta hluta bókarinnar minnar, auk þess að sjálfsögðu að sjá landið, skemmta mér og þar fram eftir götunum.

Umsókn mín um námslán kemst ekki til afgreiðslu fyrr en eftir að ég er farinn, svo ég þarf að fara í talsverðar útréttingar í sambandi við þau úti á landi. Sem ég vona að verði minna vesen en öll tilefni standa til. Ég þarf nefnilega framfærslulán strax í september, ef ég á að geta keypt mér skólabækur. Auk þessa alls er svo margt annað fleira sem ég þarf að klára áður ég fer á sunnudagsmorgninum. Margt fleira sem ég man ekki allt hvað er, fokkfokkfokkfokk …

Og aldrei get ég munað eftir að kaupa kaffivél! Farinn að sjóða mér Kenýakaffi í espressokönnu. Niðurstaðan eitthvað í ætt við það sem Bjarti hefði þótt duga í að tjarga hrúta upp úr. Gæti allt eins étið það upp úr pakkanum!