Auðnustjarnan elt

Lauk við þann fróma eftir Kárason. Hún hafði þau áhrif á mig að mig langar til að ferðast, og þá almennilega, engar tveggja vikna hallærisreisur eins og vani stendur til.

Sömu áhrif hefur svo auðvitað frásögnin af heimilislausu Íslendingunum í Frakklandi. Auðvitað er ekki hálft eins skemmtilegt að minnast þess að hafa lekið inn á heimili við komu, ólíkt því að hafa þurft að slást fyrir því í heila viku. Ævintýri eins og þau eiga að vera. Sem kennir manni að kannski er bara allt í lagi að ferðast án fullvissu og leggja allt sitt undir á vogarskál lukkunnar, elta auðnustjörnuna eins og Kárason kallar það. Kannski heitir það kæruleysi í ykkar bók, en kæruleysi án fífldirfsku þó að minni hyggju. Sumt er bara skemmtilegra að reyna meðan hinn kosturinn er margþvældur og steríll, hvert ferðalag öðru ferðalagi líkt. Ég fyrir mína parta nenni ekki að ferðast þannig lengur.

Og kannski með þetta tvennt til hliðsjónar fæ ég þá þrótt til að halda áfram með mína eigin ferðasögu, sem er talsvert viðburðaríkari en maður skyldi hafa ætlað í fyrstu. Í það minnsta miðað við tveggja vikna reisu. Vandamálið er bara þetta: Hún er löng. Alveg hryllilega löng.