Gengið yfir Austurvöll í sólinni, inn Austurstræti, harmonikkutónar óma um miðbæinn, La vie en rose. Viðkomandi fékk allt klinkið mitt, ásamt hugskeytinu: Vonandi verðurðu alltaf hér í fallegu veðri.
Hitti jafnréttisfulltrúa Menntaskólans við Sund, Kjartan Þór Ragnarsson, á Sólon. Stórtækar hugmyndir í gangi, og við höfum góða samstarfsreynslu síðan í fyrravetur. Ef vel tekst til verður bylting í MS í vetur, algjör hugarfarsbreyting.
Ekki er vanþörf á heldur. Ég hef nefnilega heyrt ljótar sögur af málum sem komið hafa inn á borð rektors síðustu misseri. Og ég er einfaldlega langt frá því að vera sáttur við „árangur“ síðasta vetrar. Hvaða árangur? Það hlýst ekkert af því sem haft er eftir mér í fundargerðum, og einhverra hluta vegna var mér veitt viðurkenning við útskrift fyrir stóru orðin. En orðin tóm eru einskisvirði án aðgerða, og sömuleiðis sá sem lætur þau falla.