Hef legið andvaka í alla nótt eftir að ég las í Útgönguleiðum eftir Steinar Braga, en það er ekkert samhengi þar á milli þótt í fljótu bragði gæti virst fyndið að halda því fram.
Mér er ómögulegt að líta það öðrum augum en svo að enn sé nótt úti, samt er ég kominn á fætur, ósofinn að bíða eftir tekatlinum. Drekk kaffi sífellt sjaldnar eftir að ég uppgötvaði mjólk út í Earl Grey, en sjálfsagt er þetta allt sama eitrið. Og hverju fleiru fleygir dagurinn framan í mig? Sulla mjólk út í teið, á fernunni stendur: Gildir til 01 11. O me miserum! Ég er að eldast! Þessu hafði ég alveg gleymt þrátt fyrir að allt ættartréð hafi verið að hringja í mig í tíma og ótíma að trufla mig með þessu.
Jahérna, svona verða víst birtuskilyrðin það sem eftir lifir vetrar. Sit hérna semsagt, mæni útum gluggann á þetta vesturreykvíska útsýni sem ég er farinn að venjast einum of vel, og velti fyrir mér einhverju því allra undarlegasta konsepti sem mér hefur dottið í hug. Vona bara að það sé nothæft.
En nú dettur mér ekkert fleira í hug til að þusa um á þessum síðum, svo ég vísa bara í tvö ljóð eftir Eirík Örn Norðdahl í tilraun til að mynda einhvers konar hugrenningatengsl. Ég er nefnilega meðal annars að pæla í nokkurs konar Berlínarmúrskonsepti, svo var að renna upp fyrir mér rétt í þessu að ég á kórónaföt, albestu jakkaföt sem ég hef átt. Þau eru saumuð í Karnabæ á öndverðum níunda áratugnum, og náunginn sem saumaði þau vinnur í Herra Outlet, Faxafeni. Hann er pólskur, fyrir þá sem það vilja vita, og ef til vill heitir hann Karel en það veit ég ekkert um.
Mæli með því að sulla frekar teinu út í mjólkina heldur en öfugt.
http://www.rsc.org/pdf/pressoffice/2003/tea.pdf
„Drink at between 60-65 degrees Centigrade to avoid vulgar slurping which results
from trying to drink tea at too high a temperature.“
Ekki ónýtar ábendingar þetta!