Það er eitthvað svo einkennilega drungalegt að horfa á regnið fljóta lárétt eftir glugganum mínum meðan skuggamyndir lauflausra trjáa hver ofan í annarri sveiflast til í taktleysi framan við ljósum logandi glugga húsanna á móti. Eins og það sé ekkert annað til í heiminum, trén verða að táknmynd hins illa í huganum. Myrkrið er þvílíkt að það sést ekkert annað en þetta, og vindurinn gnauðar og bárujárnið brakar eins og húsið sé við það að springa innanfrá.
Þetta er einmitt það sem ég reyndi að hafa orð á síðustu helgi, þegar veðrið lét hvað verst. Óveður eru notaleg og á vissan hátt rómantísk. Þá sat ég við kertaljós í rafmagnsleysi og hafði það notalegt. Á hinn bóginn eru hálfgerð óveður eins og þetta verri en andskotinn sjálfur. Og stemningin býður ekki beinlínis upp á huggulega afþreyingu á borð við að klæða sig í rollu, hlaða ofan á sig köttum, slafra í sig tei með meistaraverk í lúkunum og bryðja hrökkbrauð með ostalufsum.
Þetta átti nú ekki að vera svona grótesk lýsing. Kenni veðrinu um.