Fíaskó

Öll þessi Moggablogg eru að springa utanaf bloggfærslum um Blaðið, Sigurjón M. Egilsson og einhvern umbrotsmann líkt og þar eigi sér stað bein útsending á umfangsmesta stjórnmálaskandal Íslandssögunnar, menn talandi um sinn Hádegismóa eins og hvert annað Watergate, þegar í raun hljóti öllum að vera jafn innilega sama og mér þótt einhverjum körlum detti í hug að skipta um vinnustað.

Moggabloggin eru eiginlega orðin að framlengingu á Fréttablaðinu, DV og Blaðinu: Fjölmiðlar fjölmiðlafólks fyrir fjölmiðlafólk. Kannski ekki skrítið þar sem allir þeir sömu og vinna á þessum blöðum blogga hjá Mogganum, hversu vitrænt sem það annars hljómar. Og hvað nákvæmlega er svona merkilegt að gerast á þessum blöðum? Ekkert, fyrir utan að þau verða ólæsilegri með hverjum deginum, ef þau voru læsileg til að byrja með. Og Bloggheimar fullir af einhverju fjölmiðladrama: Vísað á dyr, fékk bréf frá einhverjum náunga sem enginn hefur heyrt um og öllum er sama um, ræddi við þessa menn sem enginn hefur heyrt um (en það er töff að namedroppa).

Á sama tíma heyrist sama mjálmið alltaf frá fríblaðakommúnunni: Baugur og Mogginn, Mogginn sökkar, blabla. En svona fyrst þetta er orðið álíka vandræðalegt eins og í kvikmyndinni The Paper finnst mér alveg athugandi að prófa að skjóta á þessa blaðamenn og ritstjóra eins og gert var í henni. Þá fengju íslenskir fjölmiðlar kannski smá sans fyrir spennu. Þótt frásagnir fjölmiðlamanna af sjálfum sér myndu ef til vill ekkert minnka fyrir vikið.

One thought on “Fíaskó”

Lokað er á athugasemdir.