Stóð fyrir stundu við suðurgluggann á íbúðinni og reykti. Í efsta glugga húsagarðsins á móti sá ég spegilmynd lítillar telpu hoppa á rúmi á fjórðu hæð hússins við hliðina. Hún hoppaði án afláts, og án sýnilegrar skemmtunar.
Það var undarlega róandi á að horfa. Og kannski er lífið einmitt spegilmynd af slíkum leik sem ætíð virðist vera beint fyrir framan þig en er í raun í næsta húsi. Þess vegna tekurðu ekki þátt.
Kannski ég banki upp á hjá grönnunum, segist vera kominn í leit að lífi. En ekki strax, fyrst leita ég dauðans á botni kaffibolla. Svo tek ég spegilmynd lífsins með ró uns ég nenni að hafa mig í að banka upp á og hoppa á rúmi fram í rauðan dauðann.
Eða þartil þau reka mig út.