Á Árnastofnun

Ég ákvað að prófa lesaðstöðu Árnastofnunar, þó ef til vill í helst til sakleysislegum erindagjörðum:

Áttu hér eintak af Snorra-Eddu? Tjaá, hér er allavega eitthvað, svaraði bókavörðurinn og rétti fram velmeðfarna bók bundna í skinn.

Ég sest inn á lessal og opna bókina: „Snorra-Edda ásamt Skáldu og þarmeð fylgjandi ritgjörðum eftir gömlum skinnbókum. Útgefin af R. Kr. Rask, prófessor og öðrum bókavörð Kaupmannahafnar Háskóla, Stockhólmi 1818. Prentuð í hinni Elménsku prentsmiðju.“

Hér er ekki skafið ofanaf hlutunum. Ef ég bæði um Trektarbók, ætli mér yrði afhent svona eitthvað innanúr skotheldum glerskáp?

Hér er annars gott að vera og allir afar notalegir við mig.

5 thoughts on “Á Árnastofnun”

  1. Mikið þykir mér þú framhleypinn og duglegur. Mér tókst að fara í gegnum BA-nám og MA-nám í íslensku án þess að koma nokkurn tíma inn á Árnastofnun. Ég þorði aldrei að dingla (bjóst við að beðið yrði um lykilorð í dyrasímanum) og hafði líka frekar óljósar hugmyndir um hvað leyndist bakvið læstar dyrnar!

  2. Ég skil það vel, ég var allur á nálunum þegar ríkisstofnanaröddin heyrðist í dyrasímanum og yfirsteig öll lögmál um orðáherslu. Nokkrir íslenskunemar stóðu átekta og hugðu mig aldregi myndu snúa þaðan aftur.
    Svo var þetta alltsaman hið huggulegasta fólk, þótt mér hafi annars liðið eins og útgáfu Steins Steinarrs af Skarphéðni í brennunni innanum alla þessa málfræðitöffara.

  3. Láttu mig heyra hvað þú færð í hendur í næstu ferð. Þú ert nú meiri kallinn.

Lokað er á athugasemdir.