Áðan ók ég á nýja bílnum mínum út í búð, þar sem ég endaði á að kaupa mér hval á grillið. Á leiðinni heim tók ég eftir að búðin stendur við Hvaleyrarbraut, sem reyndist liggja í boga upp á nærliggjandi holtið og niður aftur þar sem hún tengist Hringbrautinni beint.
Hvaleyrin sjálf var merkileg útlits en ekki kann ég söguna af þessari nafngift; hvort þar hafi eitt sinn strandað hvalur eða þeim verið slengt á land þarna úr skipunum.
Þegar heim kom bar ég drasl inn úr bílnum og nagladekkjunum henti ég niður í geymslu. Þegar ég ætlaði að verðlauna mig með hvalnum mundi ég að sjálfsögðu eftir að gaskúturinn er uppi á Öldugötu og sömuleiðis hnífapörin.
Fyrst ég er á annað borð að skrifa um hvali má bæta því við að þegar ég var lítill hélt ég því oft fram við Hrefnu frænku mína að með lambhúshettu á höfðinu liti hún út eins og hvalur. Þá vissi ég ekki að kjötið góða kæmi af samnefndri skepnu.
Sæll Arngrímur minn. Var það gott hvalurinn. Vá ertu kominn með nýjan bíl flott maður. Verðum í sambandi. Kv Auðun
Nei, glætan! Ég sagði það nákvæmlega sama við Háhyrning frænda.
Élþollr.
Sko, að búa í Hafnarfirði er ekki svalt og að borða hvali er ennþá minna svalt.
Það er samt svalara að viðurkenna ósvala búsetu og/eða sérvisku/-r en fara í felur með það 😉
Hvaða fordómar eru þetta? Ég hef ekki skoðun á því hvort að það sé svalt að borða hrefnu eður ei, en gott er það. Hafnarfjörður og Reykjavík eru sama tóbakið fyrir mér…
En auðvitað er alltaf svalast að vera maður sjálfur, það er ekki spurning!
Tek undir með Hörpu, ekki síst hvað snertir nöfnu frænku minnar. Það getur samt verið ungum drykkjumanni fjötur um fót að komast leiðar sinnar.
Heyrðu Arngrímur, er ekki búið að starta svona bæjarlistamannakonsepti í Hafnarfirði? Þú gætir örugglega orðið bæjarlistamaður þarna suðurfrá, það ætti allavega að ganga ef þú gengur í einhvern krataflokk.
Á ekki að fara að blogga meira hvernig er það?
Takk fyrir síðast,það var svo gaman að sjá þig sykurpúðinn minn 🙂
Farðu svo að blogga,ég kíki á hverjum degi og vonast eftir einhverju skemmtilegu!
Þetta ætla ég að gera Þórdís; ef Hafnarfjörður lagast ekki að mér laga ég Hafnarfjörð að sjálfum mér. Ég sé nafnspjaldið þegar fyrir mér:
Arngrímur Vídalín
Hafnfirðingur – Krati – Bæjarlistamaður
Takk sömuleiðis fyrir síðast Silja, við verðum í bandi. Varðandi bloggið verðið þið Auðun bara að sýna biðlund, ég hef afskaplega lítið að segja og enn minna sem ég hef áhuga á að gaspra hér.