Eftir að ég hafði gengið frá samkomulagi um viðskipti við Byr fór ég í Glitni til að greiða skuldina, og fjandinn hafi það ef það er ekki búið að innrétta staðinn eins og eitthvert geimskip. Hryllilegar lyftuútgáfur af Tears in Heaven og viðlíka lögum ómuðu um rýmið og skælbrosandi stelpur í drögtum buðu uppá sótthreinsað kaffi, áreiðanlega kiknandi undan harðsperrum í munnvikunum. Þetta er ekki banki lengur, þetta er heill andskotans sirkus.
Ég fékk ekki að tala við neinn sem skiptir máli, aðeins hefðbundinn bankastarfsmann í löginnheimtudeild, þannig að mér gafst ekki almennilegt tækifæri til að öskra á neinn. Skuldin er þá greidd en enn er eftir að færa peningana mína milli banka. En það er víst eins gott að bankinn gleymdi ekki að senda mér stefnuna eins og hitt, því hið merkilegasta við þetta allt saman er að innheimtuaðferð bankans, sem fer hér á eftir, er lögleg:
1) Viðkomandi eru sendar ítrekanir um greiðslu allt að 38.000 krónum. Það var gert í mínu tilfelli.
2) Viðkomandi er send aðvörun um að farið verði í hart verði skuldin ekki greidd. Það var ekki gert í mínu tilfelli.
3) Viðkomandi er stefnt til að greiða skuldina innan þriggja daga frá stefnuvottun ellegar verði hann kærður til Héraðsdóms. Það var og gert, með fyrrgreindum málalyktum. En höldum annars áfram, hér kvíslast þetta í tvennt:
4a) Stefndi tapar málinu fyrir rétti og er gert að greiða upphæðina auk alls málskostnaðar. Ætli það hlaupi ekki á hálfri milljón fyrir einn Visareikning.
4b i) Stefndi mætir ekki fyrir dóm af einni eða annarri ástæðu og veitir það stefnanda aðfararrétt.
4b ii) Stefndi er tekinn fjárnámi og/eða eignaupptöku, þ.m.t. húsnæði í hans eigu að andvirði 20 milljóna króna. Mismunur er vitanlega ekki gefinn tilbaka.
4b iii) Stefndi er í kjölfarið lýstur gjaldþrota.
Svona getur 23 ára gamall námsmaður orðið gjaldþrota. Finnst engum öðrum en mér það óeðlilegt að bankar skuli stefna fólki fyrir svo lágar upphæðir, án þess einu sinni að a) vara við því að málið verði tekið til innheimtumeðferðar berist greiðsla ekki fyrir tiltekinn tíma, og b) veita andmælarétt áður en stefnt er. Það hefði svo sannarlega gagnast í mínu tilfelli, þar sem ég hafði samið um það við þjónustufulltrúa að ég greiddi allar mínar skuldir við bankann í septembermánuði núlíðandi. Hvað gerðist veit ég ekki. En þetta er allur skilningurinn og traustið – hin dásamlega námsmannaþjónusta Glitnisbanka. Og er það ekki í fyrsta sinn sem viðlíka stofnun svíkur við mig munnlegan samning.
Skrifast með von um að nýi bankinn reynist betur.
Andskotans pakk. Ég mæli með sparisjóði Vestfjarða. Grínlaust.
Annað sem ég gleymdi: Ef íbúðin er keypt gegnum veð ömmunnar, þá endar hún sömuleiðis á götunni ef málið fer alla leið.
Byr varð fyrir valinu. Ég var með bankabók hjá Sparisjóði vélstjóra í gamla daga og get ekki sagt annað en mér lítist ágætlega á nýja fyrirtækið.
bankarnir taka okkur sápulaust í r***gatið með flírubros á vör.
Iss. Glitnir og ég erum góðir vinir. Ég hringi og fæ LÍN-reikning eins og skot. Ef eitthvað vantar upp á greiðslur hringi ég bara í þjónustufulltrúa og segist vera tryggasti viðskiptavinurinn síðustu 20 árin eða mæti á staðinn og smjaðra. Klikkar aldrei!
Svo er ein góð leið til að sleppa við svona vesen: Hættu að eyða umfram sem þú í raun átt og borgaðu svo skuldirnar á réttum tíma!
Hana nú og hafðu það.
Klikkaði plottið mitt um að gera þig gjaldþrota? Fjandinn, þá þarf ég að redda einhverju öðru sem tilgangslausu illvirki vikunnar …
Dagur, það er ekki málið. Málið er að bankinn braut á mér og þeim væri nær að koma fram við viðskiptavini sína eins og manneskjur. Gildir einu að ég hef verið dyggur viðskiptavinur þeirra nær alla tíð og borgað bjórinn þeirra með dráttarvöxtum.
Ásgeir: prófaðu að gefa honum reynsluáskrift að tímariti. Það urðu þónokkrir gjaldþrota af því, en reyndar einungis vegna þess að þeir kunnu minna í lögum en Arngrímur …
Ferlegt mál. Landsbankinn braut einu sinni alveg hrikalega á mér, þegar ég var námsmaður í útlöndum. Þeir sendu peningagreiðslu inn á rangan reikning (ekki minn) og þegar þeim tókst ekki að endurheimta hana frá viðkomandi afskrifuðu þeir hana sem skuld Á MITT NAFN án þess að svo mikið sem segja mér frá því.
Ég var á svörtum lista bankanna án þess að vita það og komst að því þegar ég ætlaði að skrifa upp á lán fyrir móður mína. Þetta var hreint og klárt lögbrot. Íslensku bankarnir eru *********.
Þú hefur vonandi ekki kyngt þessu eins og ég. Ég bara nenni ekki að standa í stappi, vitandi að ég hef ekkert í höndunum.