13 thoughts on “Manifestó”

  1. Að því sögðu:
    Auðvitað fylgir alltaf sá böggull skammrifi (hvað svosem skammrif eru og hvers vegna bögglar fylgja þeim) að um leið og eitthvað er lýst dautt reynist það vera sprelllifandi, jafnvel meira svo en áður.
    Pointið:
    Að troða öllu mögulegu og ómögulegu (helst ómögulegu) inní bækur sem ekki er nokkur von til að nokkur sjái – hvað þá skilji, fatti, kunni að meta – hlýtur að vera með öllu tilgangslaust fyrir aðra en skáldið. Og sem best ég fæ séð eru bækur (að mestu leyti) skrifaðar fyrir annað fólk en skáldið sjálft. Ekki les ég bókina mína, hvað þá nýt allra hugmyndanna þar sem enginn annar fær séð eða notið.
    Niðurstaða:
    Hismi.

  2. Ég held að ansi margar bækur búi yfir einhverju sem maður ekki sér – né á möguleika á að sjá. Einhvern tíma líkti Steinar Bragi þessu við stillansa – það þarf stillansa til að byggja hús. En þegar húsið er tilbúið tekur maður stillansana niður, fleygir timbrinu og þeirra sér ekki lengur stað – en það þýðir ekki að hægt hefði verið að byggja húsið án þeirra.

  3. Var að skoða lofið um Garðskálann. Samkvæmt því virðist ég helst hafa unnið mér til afreks að vera sonur móður minnar 😛
    Ja, fussumsvei.
    Það er eins með bróður minn. Eins og ég hef stundum grínast með mun æfisaga mín heita „Í skugga Vésteins“. 😉
    Ekki það að ég telji mig ekki vel ættaðan… 🙂

  4. Þetta er skemmtileg líking. Annars hef ég ekkert á móti vel heppnuðum konseptum. Í raun beini ég þessu fyrst að sjálfum mér, svo þeim sem fela eitthvað svo vel í bókum sínum að það finnst aldrei.
    En það er eitthvað við konsept sem er svo yfirgengilega kjánalegt af hálfu skáldsins. Hann er með allan katalóginn í æviverkinu: Ein bók um dauða, ein um ástina, ein um ’78 módel af bláum Ford. Bækurnar fjalla um þetta og ekkert þar fyrir utan. Svo á banalegunni hugsar hann til allra þeirra verka sem hann hefði getað skrifað; hann deyr án þess að hafa skrifað eina einustu bók um fyrsta snjó vetrar.
    Er þetta kannski bara leiðinlegur útúrsnúningur? Líklega tala ég bara útum rassgatið á mér eins og venjulega.

  5. Ég held að konseptið þurfi að vera frekar víðtækt ef því er beitt, þó það gæti litið út eins og sértækt – en haldi þó báðum eiginleikum.
    Lélegt dæmi væri konseptið dauðinn fyrir ljóðabók. Skáldið útfærir dauðatáknið á marga vegu; dauði í þessu og dauði í hinu. En það þyrfti náttúrulega að yrkja í kringum konseptið, þ.e. að það sé ekki alltaf sýnilegt og að orðið „dauði“ komi þrisvar fyrir í hverju ljóði.
    Frekar, þú veist, nota orðið í algjöru lágmarki og yrkja kannski um dauða þjóðfélagsins, dauða stjórnmála, dauða sálarinnar, dauða ástarinnar, dauða trúðsins, dauða konseptsins o.s.frv. (set hér fram hallærislegar klisjur) – án þess að sýna beint að það sé um dauða að ræða. Leyfa því að liggja á milli línanna, en samt í ákveðnum balance.
    Kannski væri besta ráðleggingin að segja: Eltumst ekki við konseptið, leyfum því að koma.
    (Síðan er hægt að styrkja það eftir á).

  6. Það er kannski ekki að furða að enginn skilur hvað ég er að fara ef ég kann ekki að útskýra það.
    Að einblína á eitthvert umfjöllunarefni sem konsept – þessi ljóðabók fjallar um þetta tiltekna atriði í þessu og þessu samhengi – er að sníða sér of þröngan stakk, til þess eins sé bókin skrifuð að fjalla um þetta tiltekna atriði. Mér finnst sú hugmynd oftar en ekki leiðinleg og óþörf þegar mörg slík konsept semja sig hvort eð er sjálf í huga lesenda.
    En ég er líka að taka þann pól í hæðina að höfundarætlan ljóðabóka skipti máli; að fólk sé ekki að lesa of mikið milli línanna þegar það á ekki séns í að skilja hvað höfundurinn er eiginlega að fara. Það skiptir máli að boðskapurinn verði ekki tyrfinn innan þess ramma sem skáldið setur sér. Þess vegna: já, eins og þú sagðir, er óþarfi að elta ólar við konsept. Það skemmir of oft fyrir einhverju sem hefði getað orðið gott.

  7. Mér þykir mikilvægt að rugla því ekki saman – skilningi skálds á bók sinni og skilningi lesanda. Þetta eru einfaldlega mjög ólíkar upplifanir – og það hvernig skáldið skrifar, sérstaklega þeir sem rita órætt, hefur ekki með það að segja hvernig bókin er lesin – nema í allra anölustu tilfellum. (Og nei, ljóð „dýpka“ ekki þegar maður tengir þau við ævi skáldsins, eða bók sem skáldið var að lesa á þeim tíma).

  8. Það er svo fín lína á milli þessa alls. Það sem skáldið vill koma á framfæri á að skiljast, það sem það vill hafa milli línanna á að vera þar. Ef allt endar milli línanna svo það verður óskiljanlegt er ég ekki alltaf viss um að skáldið hafi unnið verk sitt nógu vel – en maður veit aldrei nema þannig eigi það að vera.
    Á hinn bóginn er aðgreiningin auðvitað mikilvæg, og ég er sammála því að ævi skáldsins dýpki ekki verkin, ekki nema á yfirborðslegan máta, t.d. verk miðað við samtíma og þess háttar. En það er nú líka bara hobbí fyrir sögulega bókmenntafræðinga að gutla í slíku og hefur takmarkaða fræðilega þýðingu.

  9. Það sem ég á við er þetta:
    Skáld ætlar að skrifa um „þemað“ dauðann.
    Skáld skrifar bók með þessum formerkjum.
    Þar með er ekki gefið að niðurstaðan verði bók með „þemanu“ dauðanum. Jafnvel þó skáldið haldi það. Skáldið getur séð að bókin er góð, og bók getur verið góð án þess að nokkur skilji hana. Ætlun skáldsins hefur ekki nema takmarkað með niðurstöðuna að gera – og niðurstaðan getur verið góð þó ætlunin „mistakist“.
    Sá sem veit hvað hann mun hafa skrifað þegar hann hefur skriftir – tja, hefði ekki þurft að skrifa það fyrirfram, því það er nánast gefið að sú niðurstaða sem maður getur gefið sér fyrirfram sé fullkomlega banal.
    Þeir stillansar sem maður reisir sér fyrirfram eru einfaldlega verkfæri til þess að fara eitthvað – þeir eru ekki áfangastaðurinn.

  10. Þessi bloggfærsla minnir mig á ljóðið Manifestó Alvaros de Campos (ekki illa meint):
    „Nú hefst manifestóið:
    Kúkur.
    Hlustið vel:
    Kú-ú-ú-úkur!“

Lokað er á athugasemdir.