Seinleg athugun

Byssan gerir aldrei skyssan segir máltækið. Auðvitað gerði hann enga skyssu í stóra Morfísmálinu, það sem gert er að undirlögðu ráði getur varla flokkast sem mistök, þótt það sé ef til vill misráðið eftir á að hyggja. Mistök eru engin afsökun fyrir að vera hálfviti.

Hitt er svo annað að ef umræðurnar á vefsíðu téðrar Byssu eru til marks um þá mælskulist sem Morfísmenn vilja halda til haga fæ ég ekki annað séð en það sé kominn tími til að leggja þetta niður. Nóg er til af gróðrarstíum hroka og heimsku samt.

Bækur

Þegar ég mætti í skólann beið mín eintak af Ást á grimmum vetri frá honum Sigtryggi. Ég er ekki frá því að mér þyki meira í hana spunnið núna en þegar ég las hana síðast fyrir rúmi ári. Hver veit nema sama verði uppi á teningnum hjá Steinunni Sigurðardóttur, sem Kistudómur dagsins er tileinkaður. Það er einhver einkennilegur hörgull á kápumyndum á netinu nú um mundir, að því er virðist, og því þurfa lesendur að horfast í augu við höfund – eða spegilsjálf hennar – við lestur dómsins. Skárra væri það nú en ef höfundar ginu yfir ritdómurum að störfum.
Nú hefur einn kennari líkt norrænum miðaldasögum við ástandið í Ráðhúsinu. Annar kennari líkti því svo við harmleikinn Antígónu eftir Sófókles. Þriðji kennarinn talaði svo um misbeitingu valdhafa gegnum tungutak. Þá er eftir að sjá hvað hann segir um meirihlutamyndanir, orðmyndunarfræðikennarinn.