Sitthvað hversdagslegt

Frá og með síðastliðnum föstudegi er ég í 55% starfi á bókasafninu. Ekki veit ég hvað hefði orðið um mig hefði ég ekki fengið þessar aukatekjur. Við félagsmenn svalasta stéttarfélags landsins, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, fengum á dögunum glæný félagsskírteini sem veitir okkur ókeypis aðgang að öllum almenningsstofnunum borgarinnar. Nema þegar grannt er skoðað gildir það til fyrsta mars næstkomandi. Ha? Ókeypis í sund í tvo mánuði? En sú rausn.

Árekstrar hvert sem litið er þessa dagana. Ég hef enda þurft að forðast nokkra sjálfur með því fólk kann almennt ekki að keyra. Hvað er það sem þrengir sér gegnum hausinn á þeim sem í fljúgandi hálku hættir við að ná gulu ljósi, kominn hálfur út á gatnamótin? Kannski þetta sé tilraun á vegum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, að sjá hversu mörgum bílum má stafla upp innan tveggja fermetra án annarra hjálpartækja?

Í gær horfði ég á Who Framed Roger Rabbit, sem er náttúrlega tær snilld. Hana keypti pabbi handa okkur bræðrum á flugvellinum í Milano vorið 1990, á heimleið eftir tæplega tveggja ára búsetu á Ítalíu. Vitaskuld var myndin með ítalskri talsetningu, og þannig hef ég jafnan horft á hana, þar til í gær. Óneitanlega skildi ég ýmsa hluti betur, en ég læt vera að myndin sé erfiðari viðfangs þótt maður skilji ekki málið. Mér til mikilla vonbrigða var engin ítölsk talsetning á disknum.

Áðan fór ég svo með síðbúna afmælisgjöf til Frosta litla, sem var raunar ekki viðstaddur afhendinguna. En ég hlakka til að vita hvað honum þykir um gjöfina, því það verður að játast að ég hef ekki guðmund um hvað á að gefa svona snáðum, þannig að ég keypti nokkuð sem ég veit að ég hefði orðið ánægður með á sínum tíma (af miklu úrvali fannst mér þessi líka langflottastur).