Óvíð – Sófóklíð?

Í fyrsta tíma í janúar lýsti Gottskálk Þór Jensson, kennari minn í bókmenntasögu, því yfir að hann tæki ekki í mál að lesa yfir ritgerðir þar sem enskar útgáfur nafna væru notaðar þegar fullkomlega góðar íslenskar útgáfur væru til. Ég var hjartanlega sammála honum þar til ég komst að því hvað „góðar íslenskar útgáfur“ þýddi. Það er semsé bannað að segja Ovid og Virgil, þess í stað á að segja Óvíð og Virgill. Ég sé ekki muninn.

Það var ekki Dædal sem smíðaði völundarhúsið, heldur Daídalos, og sonur hans hét Íkaros en ekki Íkar. Sömuleiðis hétu stofnendur Rómar ekki Róm og Rem, heldur Rómúlus og Remus, Brútus hét ekki Brút og Ágústus keisari hét ekki Ágúst. Ég veit ekki betur en Gottskálk segi Ödípús en ekki Ödíp. Þess vegna finnst mér fáránlegt að segja Óvíð en ekki Óvidíus, Virgill en ekki Virgilíus. Þessar tilteknu íslensku útgáfur eru nefnilega lítið annað en illa dulbúnar umritanir á þeim ensku, og þá finnst mér betra að nota latneskar útgáfur.

Skemmtilegar undantekningar eru þó til eins og til dæmis Ódysseifur og Orfeifur, en það er ansi erfitt að eiga að vera samkvæmur sjálfum sér hérna. Sjálfur segi ég iðulega Orfeus en konu hans nefni ég Evridís. En rithátturinn Óvíð þykir mér alveg sérlega ótækur viðbjóður og ég mun seint tileinka mér hann.