Af viðbjóðslegum endurútgáfum

Í dag hefði Þórbergur orðið 120 ára. Í tilefni þessa merkisafmælis hefur Mál og menning ráðist í að endurútgefa höfundarverk hans í forljótum kiljuóskapnaði. Þegar eru komnar út Bréf til Láru og Steinarnir tala – sem er skrýtið því síðarnefnda er hluti af stærra verki sem væri nærri lagi að gefa út í einni bók. Og til að bíta höfuðið af skömminni koma ekki fleiri bækur út í ár að því mér skilst. Bravó, Mál og menning.

Síðasta endurútgáfa á Þórbergi taldi aðeins Bréf til Láru, Íslenzkan aðal og Ofvitann, og voru þær þó sýnu ljótari, og hver veit nema til hafi staðið þá eins og nú að gefa út allt heila klabbið en menn hætt við eftir fyrsta árið. Sama er uppi á teningnum með Gunnar Gunnarsson. Það er liðið ár frá síðustu grútljótu kilju, en hvar er afgangurinn? Og í alvörunni, hver hannar þetta? Ritsafn Steinars Sigurjónssonar sést enn ekki í búðum, en að þessu sinni gerðu þau eitthvað rétt og gáfu það út á einu bretti. En þá er eftir að sjá hvort bækurnar verði sama lýti á ljótustu bókahillu eins og hin stórverkin. Hvers vegna fá aðeins bækur Halldórs Laxness að vera fallegar?

10 thoughts on “Af viðbjóðslegum endurútgáfum”

 1. Hjartanlega sammála þér um kápur og endurútgáfu. Hvað Gunnar varðar eiga t.d. Vikivaki og Blindhús fullt erindi. Brimhenda er ekki allra sökum stíls og orðfars, þarfnast þolinmæði en gefur sannarlega af sér ef maður gefur sig henni á vald. Mér fannst hún ergo mjög góð. Að ég tali ekki um Sælir eru einfaldir.

 2. Mér finnst nú meira um vert að þetta sé yfir höfuð gefið út og nái til nýrra lesenda. Væri beðið eftir því að Þórbergur, nú eða Gunnar, yrði gefinn út á einu bretti þá mættum við bíða lengi.

 3. Ég auðvitað fagna viðleitninni, því heldur beini ég þessu gegn rúnkinu á nóbelsskáldinu, að honum annars ólöstuðum.
  Nú kemur Steinar Sigurjónsson fram á markaðinn í öllu sínu veldi skyndilega á sama tíma og Þórbergur og Gunnar eru gefnir út ein bók í einu. Það finnst mér merkilegt.
  En það er eins og góður vinur minn benti mér á fyrr í kvöld, að í raun sé lítill markaður fyrir þessar endurútgáfur, og þess vegna reyni útgefendur að komast sem billegast frá því. Mér finnst það samt ekki afsaka neitt enda er það svo á íslenskum bókamarkaði að framboðið skapar eftirspurnina að talsverðu leyti með réttu PR. Sem dæmi um þetta þá varð Stefán Máni ekki snillingur yfir nótt þótt allir læsu Skipið, og miklu munar þar um hversu langt útgefendur eru tilbúnir að ganga.

 4. Ég tel nú allar kiljuútgáfur á Laxness forljótar. Hins vegar er ég á því að Gunnar Gunnarson komi best út úr þessu fyrirtæki.

 5. Hvers vegna hefurðu svona oft „Comments Off“ á færslunum? (Já og aul þess skil ég ekki hvers vegna menn standa í þessum reikningsdæmum á kommentakerfum).

 6. Ég var farinn að fá 200 ruslskeyti á dag. Reikningsdæmið fækkaði því niður í 3 á dag.
  Varðandi athugasemdirnar þá nenni ég bara að hafa þær opnar stundum, ef útlit er fyrir að ég geti fengið skemmtileg komment.
  Annars er það bara gamla góða vísun af einni síðu á aðra ef mér tekst óvart að segja eitthvað sniðugt sem vert er að kommenta á.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *