Sækjast sér um líkir

Áður en ég verð beðinn að hætta að sífra vil ég fjalla um nokkra hluti sem mér líkar. Það eru helst einfaldir hlutir, rétt eins og ég.

1. Fallegt landslag, helst ferðalög um slík og gisting á ókunnum stöðum. Fátt er betra en ferð án fyrirheits.

2. Popparar sem þora að vera bara það. The Cure, R.E.M. og Pulp. Það rýrir engan málstað að vera poppari.

3. Ljóð sem hafa eitthvað að segja. Allt frá rómantík til viðbjóðs. Meira að segja Tómas Guðmundsson, og já, meira að segja Hótel Jörð. Það þarf ekki að fjölyrða um skáldið í headernum. Góð ljóð eru að vísu ekki einfaldir hlutir, en það er einfalt að njóta þeirra.

4. Fallegar kvikmyndir. Ég fíla fegurð í réttum mæli, og þar á fagurfræði ljótleikans ekki síður við svo það komi fram. Notebook er aðeins of, Amélie er fullkomin. Er með Paris, Je T’aime óglápta heimavið, af því ég bý við ólæknanlegt Parísarblæti án þess að hafa komið þangað. Brokeback Mountain er falleg. Líka Blade Runner og Casablanca.

5. Ævisögur skálda og sögur af þeim. Ég gapi af andakt yfir ómerkilegustu hlutum þar að lútandi. Aðspurður um besta skáld samtímans uppúr 1990 sagði Dagur Sigurðarson að hann kynni best við „vígaskáldið“. Og giskið nú.

6. Dýr. Ég er mikill aðdáandi (sjá hér). Ég á sautján ára gamla kisu sem sýnir þess enn merki hvað ég hef dekrað hana.

7. Undirflokkur af 6: Fólk sem leitar út fyrir sitt eðlilega umhverfi í leit að einhverju sem það veit ekki hvað er uns það lifir eins og kettir með þrjú heimili. Kynnist slatta af því gegnum vinnuna, flest þeirra góðhjartaðar rólyndisverur.

8. Bjór. Mér samt leiðist að vera fullur.

9. Nick Hornby. Já, fokkjú sömuleiðis.

Fjaðrir ýfðar

Ég er farinn að hallast að því að sívaxandi gremjan og sárindin í fólkinu kringum mig eigi talsverða rót í minni eigin andfélagslegu afstöðu til allra hluta. Í það minnsta er ég ýmist ánægður með allt eða ekkert, og hallar á það fyrra. Það speglast prýðilega í almennu skilningsleysi á hvort ég sé að koma eða fara.

Get ekki sagt að fólk reyni ekki, en það er erfiðara að þykjast standa með sjálfum sér þegar það veldur hvað mestri úlfúð hjá manni sjálfum í allra garð og einskis af engri sjáanlegri ástæðu. Enda hef ég yfirleitt kunnað betur að svara fyrir aðra en sjálfan mig svo líklega fer mér bara best að þegja.

Það væri ágætis byrjun ef mér tækist að drepa engan með nærveru minni í fermingarveislu á sunnudaginn. Í millitíðinni ætla ég að rifja upp hvernig mannleg samskipti ganga fyrir sig. Mér er sagt það sé svipað og að hjóla, maður gleymi því aldrei, það þurfi bara pínulitla æfingu fyrst í stað.