Þátturinn sem lofað var – gleðjist!

Garðskálinn er risinn úr hýði sínu eftir langan – en fagurfræðilega nauðsynlegan – vetrardvala, en þeir Jón og Arngrímur láta engan bilbug á sér finna fremur en venjulega. Ef eitthvað er mæta þeir hálfu stórkostlegri til leiks í því augamiði að rífa sljóan almenning uppúr dróma sainnuleysis og heimsku (með fullri hógværð).

Garðskálinn er stoltur að kynna glænýja byltingakennda kenningu um endalok hinnar þrúgandi kúgunar landsins ungskálda, sem hingað til hafa ráðið allri bókmenntaumræðu með viðurstyggilega skrúðmæltu náðarvaldi sínu!

Þátturinn er næstum því í lit að þessu sinni, fyrir utan að litarásirnar á myndavélunum voru bilaðar og að settið á til að skipta litum alveg að óvörum, sem hefur slæm áhrif á ljósnæmi viðkvæmra vélanna. Arngrímur var að kaupa sér nýja skyrtu sem hann bara varð að sýna utan á sér. Jón var í sömu fötum og alltaf.

Das Gartenzimmer

Ég má til með að vekja athygli lesenda á þessum tveimur hvannadalshnjúkum andans, sem halda úti bókmenntaþættinum Garðskálanum á youtube. Þetta virðast vera tveir háskólanemar sem hafa tekið að sér að útskýra bókmenntahugtök fyrir umheiminum og reykja og horfa skáldlega upp í þakið á Hressingarskálanum til að magna hughrif áhorfandans. Sumar línurnar þarna eru svo þvingaðar að það er nánast óborganlegt. Ég hvet alla til að fylgjast með Garðskálanum.

Ég tel þetta reyndar vera grín en þeir sem bentu mér á þetta menningarstarf eru ekki á þeim buxunum.
Dóri (fullt nafn viðkomandi væri vel þegið).

Með sumrinu kemur snilldin. Ójá, þér vantrúuðu sem tölduð okkur af þurfið núna að éta hattinn ykkar, trefla og latté meðan við – það er að segja ég – göngum enn með okkar hatta, trefla og drekkum bjór, sem er miklu meira töff en latté. Jón gengur ekki um með hatt, en honum þykir gott að sitja á kaffihúsi og hripa hjá sér punkta í alltumlykjandi mannlífinu.

Já! Það eru Garðskálar á leiðinni. Þið hafið verið vöruð við. Því má raunar bæta við að Garðskálinn sendir ekki eksklúsíft út á YouTube lengur, heldur á Tíuþúsund tregawöttum undir slóðinni tregawott.net/gardskalinn. Greypið það í minnið.