Já, fagurfræðin

Ég sé að Kári Páll hefur tekið að sér að segja hér um bil það sama og ég vildi sagt hafa um fagurfræði Teits Atlasonar. Í sem grófustum aðalatriðum þetta: það er hans vandamál en ekki verksins ef hann skilur það ekki. Það er ekki hægt að gera kröfur til listaverka að það taki x langan tíma að komast til botns í þeim, þar sem x er jafngildi þolinmæði áhorfandans.

Jú, það er hægt að skoða sum verk þannig og njóta þeirra þegar í stað, til dæmis fallega landslagsmynd. En slík nálgun tekur einungis til yfirborðslegs mats á verkinu. Í slíku mati er ekki tekið tillit til myndbyggingar, formgerða, penilstroka, táknmynda eða lýsingar; hvernig formin kallast á, samspil kaldra og heitra lita eða stöðu verksins innan samtíma síns; meira að segja impressjónistarnir þóttu róttækir á sínum tíma. Þannig að jú, verkið getur verið fallegt og handbragðið gott og það getur vel nægt sumum að mynda sér skoðun á verkinu útfrá því. En með þeim ráðum fer túlkandinn á mis við verkið sjálft og buslar aðeins rétt svo á yfirborðinu.

Ef handbragðið er það sem máli skiptir, að mála sem raunsæasta mynd af veruleikanum, þá er ekkert pláss fyrir framþróun. Við bara höldum áfram að höggva endurgerðir af Davíð aftur og aftur út í hið óendanlega. Og rétt einsog í samræmi við upphaflegt þrætuepli þeirra Teits og Eiríks Arnar, þá höfum við tölvur til þess að gera það fyrir okkur núna. Það eru vélar sem höggva út þann Davíð sem þú kaupir á götuhornum í Róm. Ef handbragðið er það sem máli skiptir en ekki hugsunin þá er það tölvan sem er listamaðurinn, ekki sá sem matar hana á upplýsingum. En til hvers værum við þá að þessu?

höfundur á til að ganga með hatt, eins og sést á myndinni hér til hægri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *