Tómas Guðmundsson

Ég sé ekki þörfina á að reisa minnisvarða um Tómas Guðmundsson til að stilla upp á áberandi stað í Reykjavík. Ástæðan er fjarska einföld.

1. Það er þegar til lagleg brjóstmynd af Tómasi Guðmundssyni. Lengi vel var hún höfð í Austurstræti eins og viðeigandi þótti, eða þar til borgaryfirvöldum þótti nóg um eftir að ítrekuð skemmdarverk höfðu verið framin á henni.

2. Brjóstmyndin stendur nú í anddyri Aðalsafns Borgarbókasafns Reykjavíkur í Tryggvagötu og nafn skáldsins er letrað í boga utan um stöpulinn. Hundruð manns sjá hana dag hvern svo staðsetningin má teljast ansi áberandi.

Fyrir utan þetta er bara svo margt annað sem skiptir meira máli. Hvað á að gera í samgöngumálum borgarinnar til dæmis? Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í stað þess að benda á einhverja aðra meirihluta sem eru ekki starfandi lengur? Kannski sleppa því að skipta um meirihluta í hvert sinn sem oddamaður skreppur á salernið?

17 thoughts on “Tómas Guðmundsson”

  1. Það er ekki það sem ég átti við. Mér finnst bara einkennilegt að eyða tíma í að rífast um styttu af Tómasi – sem þegar er til – þegar margt annað gæti betur verið til umræðu.
    Ég væri samt til í styttu af Halldóri Laxness, í stíl við þá af Joyce í Dublin.

  2. Það er kominn tími á að Guðrún frá Lundi fái styttu en ekki einhver helvítis smáborgari með lögfræði gráðu.

  3. Það er ekki það sem þú áttir við? Víst! Nei, djók, ég bara skrapp á klósettið og missti af umræðunum og er í smá fýlu og með hausverk. Mér finnst að það eigi að reisa styttu af… æ, ég veit það ekki, erum við ekki að kjósa þetta lið þarna til að sjá um svona ákvarðanir fyrir okkur, þarf ég að hafa skoðun?

  4. Kommon krakkar, auðvitað Þórbergur. Íslenskur aðall, Ofvitinn, Sálmurinn, það ætti að hafa dugað til að stimpla hann inn sem Reykjavíkurhöfund.

  5. hvað með Ástu Sigurðar? það held ég hún hafi nú skrifað borgarsögurnar.
    en jú, styttur af nafngreindu fólki eru ekkert annað en hégómi og persónudýrkun og mér á eftir að finnast þær kjánaleg hugmynd alveg þar til einhver reisir styttu af mér í 105.

  6. Styttur eru frekar halló. Ég vil fá almennilega fallega gosbrunna í Reykjavík. Og kannski einhverja spennandi skúlptúra.
    Svo er fínt að setja upp skjöld með nafni og einvherju smá æviágripi utan á hús fólksins sem bjó þar og setti svip á sögu Reykjavíkur.

  7. Nei, hann hélt alltaf virðingu sinni á þann hátt að það sást ekki á því hvernig hann stóð eða sat hvort hann var ölvaður eða ekki, nema ef eitthvað var þá bar hann höfuðið hærra ef hann var góðglaður.

  8. Er það ekki fremur einkennileg röksemdafærsla að ekki megi ræða styttugerð fyrr en vegagerð hefur verið kippt í liðinn? Hljómar smávegis eins og ekki megi ræða lýsingu í Laugardalnum fyrr en ljósmæðrum hefur verið sinnt!
    En að öllu skensi slepptu… Myndu ekki öll þessi öreigaljóðskáld snúa sér ellefu hringi í gröfinni ef eitthvað jafn djöfullega smáborgaralegt og STYTTA yrði reist þeim til heiðurs?

  9. Alveg áreiðanlega myndu þau gera það. Annars var ég þegar búinn að svara fyrri sneiðinni í annarri athugasemd:
    „Það er ekki það sem ég átti við. Mér finnst bara einkennilegt að eyða tíma í að rífast um styttu af Tómasi – sem þegar er til – þegar margt annað gæti betur verið til umræðu.“
    Annars er samanburðurinn ótækur, lýsing í Laugardalnum er á hendi borgaryfirvalda, kjör ljósmæðra á hendi ríkis.

Skildu eftir svar við Arngrímur Vídalín Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *