Hvað getur maður svosem sagt?
Jú, býsna margt. Ég á sjálfsagt eftir að hafa nóg um allt þetta að segja á næstunni, en þegar orkustöðvarnar eru fullnýttar á kvöldin og það eina sem maður hefur við rúmstokkinn til að ylja sér gegn ljótviðrinu úti er Beck’s og bókin sem ég fékk í pósti í dag (og borgaði ekkert aukalega fyrir, sem er ljós punktur), þá bara fallast manni hendur.
Þannig að ég ætla að skrifa um eitthvað annað.
Í Jyväskylä heita sundhallirnar Aaltoalvari, í höfuðið á þið vitið hverjum. Helgast það af því að ekki aðeins hannaði Aalto flestar þessar byggingar, heldur því einnig að hann bjó í Jyväskylä mestanpart ævi sinnar. Nafngiftin er ennfremur orðaleikur, því aalto merkir alda eða bylgja. Flestir þeir sem ég hitti líta á Alvar Aalto sem óþolandi heilaga truntu sem löngu hefði átt að kasta fyrir róða, að byggingar hans séu ekki einasta forljótar heldur einnig ópraktískt, illa hannað drasl sem þarf að gera við á sjö ára fresti vegna hörmulegra byggingarefna sem á engan hátt henti finnskum aðstæðum, að meira að segja loftræstikerfin og einangrunin sé svo slæm að valdi hraustasta fólki lungnabólgu, og að öllum hans byggingum hefði fyrir löngu verið tortímt ef þær hefðu ekki verið hannaðar af honum. Vakti upp hugrenningatengsl við Laxness ef ég á að segja eins og er; maður sem var umdeildur alla tíð þartil hann dó og er núna álitinn heilagri en mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna.
Pieksämäki er deyjandi bær – aðalmiðstöð lestarsamgangna í mið-Finnlandi sem hefur mátt muna sinn fífil fegurri. Þar er litla menntun að fá og lítið er um að þau ungmenni sem fara þaðan í leit að æðri menntun komi aftur. Meðalaldur er í kringum 50 ár og til er finnskt máltæki sem segir að enginn stoppi í Pieksämäki nema milli lesta. Bærinn var ekki einasta kosinn þunglyndasti bær Finnlands fyrir örfáum árum heldur líka sá ljótasti. Atvinnuleysi er gríðarlegt þar sem allt revolverast kringum lestarstöðina. Núna hefur hinsvegar staðið til að reisa verslunarmiðstöð í miðbænum til að þjónusta allt næsta nágrenni, héraðið allt með sínum sveitarfélögum. Þetta myndi skapa hundruðir starfa, ein 1500 meðan á framkvæmdum stæði en hátt í 700-800 bara við verslun og þjónustu eftir að þeim væri lokið.
Ólíkt Íslandi hefur þetta vakið upp umræðu um hvort það sé umhverfisvænt að þjónusta heilt hérað með þessum hætti, að hálft Finnland sé dröslandi sjálfu sér í bílum milli staða til þess eins að kaupa mat- og merkjavöru í 20 þúsund manna bæ; og það þrátt fyrir mikla nauðsyn á sprautu í sterílt bæjarlífið. En með yfirvofandi efnahagsþrengingum í finnsku þjóðlífi virðast öll áform um verslunarmiðstöðina þurfa að bíða betri tíma hvort eð er. Fyrsta vígið til að falla í Finnlandi er húsnæðismarkaðurinn, þar sem ungt fólk í sinni fyrstu íbúð sér skyndilega fram á að vera bundið átthagafjötrum vegna þess að húsnæðið þeirra er nú langtum minna virði en skuldbindingar þeirra. Maður sem keypti sér íbúð á 14 milljónir á skyndilega húseign að nafnvirði 8 en borgar eftir sem áður af henni eins og um var samið.
Þetta er allt í bili. Forvitnum má benda á að það verður líklega bloggað meira um Finnland hér á næstunni en Ísland, svona eins og hugur minn stendur næst til.