Meira um Finnland

Í Finnlandi er til máltækið Jos ei viina, terva tai sauna auta, tauti on kuolemaksi, sem mun þýða: Ef sjúkdóminn má ekki lækna með víni, tjöru eða sauna, þá er hann banvænn. Þeir sem ég spurði út í þetta sögðu mér að þeir hefðu aldrei skilið þetta með tjöruna, en hitt meikaði alveg sens.

Eitt sem allir ferðamenn í Finnlandi ættu að hafa bakvið eyrað er að tala ekki fjálglega um Finnska vetrarstríðið. Það þykir ennþá hinn mesti pyrrhosarsigur þar á bæ; stolt þeirra og pína, og flestir ungir karlmenn sem ég hitti hafa sinnt sinni herþjónustu með stolti. Einn strákur sem ég hitti, lögfræðingur, ári eldri en ég, er yfirmaður sinnar eigin deildar ef Finnland lendir í stríði. Það þykir mér undarleg tilhugsun.

Á leiðinni til Jyväskylä þurfti ég að skipta um lest í Tampere. Daginn eftir hitti ég stúdent frá Tampere sem sagði mér frá hinum hefðbundna ríg milli Tampare og Turku. Stúdentar í fyrrnefnda bænum fara nefnilega ár hvert og negla stikur umhverfis bæjarmörk Turku, í tilraun til að afmarka bæinn frá Finnlandi, og fara þess á leit í kjölfarið með miklum látum í miðbænum að Turku verði aðskilið frá ríkinu – í von um að það þyki ákjósanlegur missir. Ef bæjaryfirvöld samþykkja ekki málaleitan Tamperemanna þá fjarlægja þeir stikurnar, en að öðrum kosti yrðu þær skildar eftir til að marka ný landamæri.

Ofan á þetta sagði hann mér brandara: Hver er eini staðurinn í Finnlandi þar sem má taka 180 gráðu beygju á hraðbrautinni? Þegar þú kemur að skiltinu „Turku 1 km.“ Nú hef ég aldrei til Turku komið en mér virðist Tampere vera hinn fallegasti bær, enda þótt það sé ógeðslega fokkíng fráhrindandi að hann sé tvíburabær Kópavogs.

One thought on “Meira um Finnland”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *