Ég er reglulega spurður retórískt þessa dagana hvar frjálshyggjumennirnir séu, fyrir utan þennan eina sem þusaði eilíft í þenslunni en flýgur á hvolfi í kreppunni, og hingað til hef ég ekkert þorað að fullyrða. En núna segir mér svo hugur að einhversstaðar séu þeir hlæjandi með vindlareykinn standandi uppúr sér, því einhverjir þeirra fá vænti ég núna að horfa uppá draumalandið sitt rísa úr öskustónni, lágmarksríkið með öllum sínum félagslega darwínisma og mannúðarleysi.
Fyrsta skrefið var tekið í dag þegar stýrivextir voru hækkaðir um sex prósentustig svo standi nú í 18 prósentum. Geðveiki segir einn, óásættanlegt segir annar. En við hverju bjuggust þeir? Hvað segja þeir þegar IMF hækkar skatta? Óásættanleg geðveiki? Allavega munu frjálshyggjumennirnir firrtast við með okkur hinum, enda trúa þeir ekki á skatta eða aðra samfélagslega ábyrgð. Mig bara grunar að skattarnir eigi eftir að fara uppúr öllu valdi – og ekki til þeirrar þjónustu sem eðlilegt væri, heldur í vasann á þeim hinum sömu og hækkuðu þá.
Og hvað svo? Heilbrigðiskerfið, skólarnir, bókasöfnin, meðferðarheimilin og – fjandinn hafi það – jafnvel elliheimilin, öryrkjastyrkir, Tryggingastofnun. Hver veit hverju þeir taka uppá? Svartasta spáin er að hér verði bókstaflega ekkert eftir, og ég þori ekki að vera of bjartsýnn þegar sömu menn eru að verki og einkavæddu vatnsbólin í Bólivíu. En kannski finnst einhverjum þetta vera voða sniðugt allt, gargandi snilld einsog Íslendingar segja. Stjórnvöldum finnst ekkert athugavert við þetta. Vandamálið er að stjórnvöld hafa enga stjórn hérna og höfðu aldrei – umboðið kom frá okkur. Núna er umboðið meira eða minna selt til erlendra aðila.
Fjórtán árum eftir að 50 ára afmæli lýðveldisins var fagnað, fjórtán árum eftir að mér í barnaskóla var kennt að það stæði eitthvað á bakvið þingið, kjörna fulltrúa þjóðarinnar, forsetann, ættjarðarjarmið og fánann. Að þetta land væri byggt upp á einhverslags forsendum, og að lýðræði væri helgasta vé þjóðarinnar, að meirihlutavilji þjóða skipti máli. Þetta tók ekki langan tíma. Og hvað tekur við hérna? Í hreinustu hreinskilni þá vil ég bara ekki vita það. En það verður svart, það vitum við þó.
Fyrsta skrefið er allavega tekið. Segið svo ekki að þið hafið ekki séð þetta fyrir, það er allt aðgengilegt á netinu.