Ætli ég sé einn um að finnast það hálftilgangslaust að skrifa eitt aukatekið orð á þessa síðu?
Eins og ég heyrði af mótmælunum í gær varð ég afar ánægður með að Íslendingar væru hættir að láta valta yfir sig. Svo varð mér ljóst að þegar fjölmiðlar segja að mótmælendur hafi grýtt þinghúsið þýðir það að einhverjir hentu eggjum í það (þó að þingið komi þessu nú lítið við). Og þegar fjölmiðlar segja að mótmælendur hafi gert aðsúg að lögreglu þá var löggan og einhverjir náungar sitt á hvað að pota í bumbuna hver á öðrum.
Næsta sem gerist er að þeir sem titla sig aktúal mótmælendur þvo hendur sínar af hinum sem „harðast gengu fram“. Semsagt þeim sem köstuðu eggjum og potuðu í bumbuna á lögreglunni þegar átti að handtaka fánastrákinn. Það skyldi þó aldrei þýða að eftir því sem mótmælin stigmagnast fari hinir aktúal mótmælendur í auknum mæli bara að halda sig heimavið með Herði Torfa á laugardögum, halda kannski gítarpartí og syngja saman með kaffi og meðþví?
Það er ekki hægt að boða fólk til mótmæla og skipa því svo fyrir. Það er ekki hægt að krefjast þess af fólki að það haldi stillingu sinni. Það er í eðli mótmæla að hlýða ekki skipunum og hafna yfirvaldinu. Og svo lengi sem æðsta valdið neitar að upplýsa almenning um ástandið munu aðgerðir fara harðnandi með hverri viku sem líður, og ef þeir þrjóskast enn við þarf einfaldlega að sýna þeim hvaðan valdið kemur: frá fólkinu. Og það er mikilvægt að sjálfskipaðir skipuleggjendur fjöldasamkoma átti sig á þessu. Það getur beinlínis verið hættulegt að hunsa það þegar ástandið er svona krítískt.
En það sem er sérkennilegasta við mótmælin í gær er ef til vill það að til sé fólk sem afneitar tengslum við uppþot sem aldrei átti sér stað. Hvernig verður þá fréttaflutningurinn – og viðbrögðin við honum – þegar raunverulegt uppþot verður?